Ég, þú og við öll

25 Hugrenningar Víðis, Trausta og Odds um jafnrétti kynjanna Víðir Guðmundsson er rennismiður, leikari og sjálfstætt starfandi listamaður. Víðir tók snemma eftir því að staða kynjanna væri ójöfn en leit ekki á það sem sitt vandamál. Augu hans opnuðust hins vegar þegar hann kynntist unnustu sinni, Þórdísi Elvu Þorvaldsdóttur. Hún var þá að skrifa bók um kynbundið ofbeldi á Íslandi og á meðan á skrifunum stóð ræddu þau mikið um stöðu kynjanna, staðreyndir og tölfræði um ýmislegt misrétti. Víðir skráði sig í kjölfarið á námskeið í kynjafræði í Háskóla Íslands. Í dag leggur hann sig fram um að hafa jafnrétti að leiðarljósi við vinnu sína. Hann tekur líka þátt í aðgerðum gegn kynjamisrétti og segir að það sé mikilvægt að þegja ekki þegar maður verður var við óréttlæti. Ráð Víðis til ykkar er: „Skoðið heiminn í kringum ykkur með kynjagleraugun á lofti, spyrjið alls kyns spurninga og veltið þessum málum fyrir ykkur.“ Trausti Dagsson er meistaranemi í þjóðfræði við Háskóla Íslands. Hann fór fyrst að velta jafnréttismálunum fyrir sér þegar hann byrjaði í Háskólanum og fór að líta á hlutina frá nýju sjónarhorni. Trausta fannst hann sjá ákveðið mynstur í viðhorfi til karla og kvenna gegnum söguna og jafnvel enn þann dag í dag. Konum og körlum er skipt í tvo hópa og ólíkar kröfur gerðar til hvors hóps. Kröfurnar eru ekki bara ólíkar heldur líka óraunhæfar og óréttlátar. Þegar sonur Trausta fæddist, fannst þeim hjónunum mikilvægt að honum yrði ekki troðið í einhvern kassa út frá kyninu. Þau vilja að sonur þeirra fái rými til að ákveða sjálfur hver hann er og fari ekki að trúa úreltum hugmyndum um hvernig strákar og stelpur séu eða eigi að hegða sér. Ráð Trausta til ykkar er: „Töffarar og prinsessur eru úr sér gengin fyrirbæri. Ekki vera hrædd við að vera þið sjálf!“ Oddur Sigurjónsson er aðstoðarverkefnisstjóri á frístundaheimili. Oddur byrjaði fyrst að velta jafnréttismálum fyrir sér þegar hann byrjaði í háskóla. Hann byrjaði á því að kynna sér femínisma og fór svo hægt og rólega að einbeita sér meira að jafnréttismálum. Hann tók svo þátt í stjórnum og ráðum Femínistafélags Háskóla Íslands og Femínistafélags Íslands. Oddi þykir mikilvægt að berjast gegn kynbundnu ofbeldi og hefur meðal annars tekið þátt í að dreifa bæklingum um mikilvægi samþykkis í tengslum við kynlíf. Bæklingurinn var gerður í tengslum við myndina Fáðu já . Ráð Odds til ykkar er: „Kynnið ykkur hvað femínismi er með opnu hugarfari. Kynnið ykkur líka hvað samþykki og mörk eru.“ Af hverju heldur þú að jafnrétti kynjanna komi sér vel fyrir karla jafnt sem konur?

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=