Ég, þú og við öll

24 Við bregðum okkur næst aftur heim til Íslands og fáum að heyra meira um baráttuna fyrir kynjajafnrétti hér. Bríet Bjarnhéðinsdóttir, frumkvöðull í kynjajafnrétti á Íslandi Bríet fæddist árið 1856 og var fyrsta barn hjónanna Bjarnhéðins og Kolfinnu. Bríet tók snemma eftir því hversu mikill munur var á uppeldi drengja og stúlkna og þótti það mjög óréttlátt. Það þótti til dæmis ekki við hæfi að stúlkur fengju að læra meira en að lesa og flestar þurftu að hætta námi við fermingu. Bríet missti báða foreldra sína þegar hún var rúmlega tvítug og fór þá að vinna sem vinnukona hjá frænda sínum. Á heimilinu var mikið bókasafn sem Bríet gat nýtt sér til að mennta sig sjálf þegar hún var ekki að vinna. Bríet komst loksins í skóla þegar hún var 24 ára gömul. Þá var hún einn vetur við nám í Kvennaskólanum á Laugalandi og útskrifaðist þaðan með hæstu einkunn. Bríet fór aldrei aftur í skóla en hélt alltaf áfram að mennta sig sjálf. Bríet var fyrsta íslenska konan til að halda opinberan fyrirlestur en hann fjallaði um hagi og réttindi kvenna. Hún gaf út, ritstýrði og skrifaði efni í Kvennablaðið sem var gefið út í 25 ár frá 1895. Bríet var ein af stofnendum Hins íslenska kvenfélags og Kvenréttindafélags Íslands. Félögin börðust fyrir jafnrétti til náms og starfa, kosningarétti og kjörgengi kvenna. Hún var í hópi fyrstu kvenna til að sitja í bæjarstjórn Reykjavíkur árið 1908. Bríet var sæmd riddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu árið 1928, fyrir störf sín í þágu jafnréttis kynjanna. Hvernig myndir þú mennta þig ef þú kæmist ekki í skóla? Þótt margt hafi breyst frá því að Bríet hóf baráttu sína fyrir jöfnum rétti kynjanna er ennþá mikið verk fyrir höndum. Finnst þér vera munur á uppeldi drengja og stúlkna í dag?

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=