Ég, þú og við öll

21 Malala Yousafzai, baráttukona fyrir menntun stúlkna Malala fæddist þann 12. júlí 1997 í Swat-dal í Pakistan. Fólkið í Swat-dal þurfti að þola átök og harðræði skæruliðahópa í mörg ár. Þessi átök hafa kostað ótal mannslíf. Pakistanski herinn hrakti skæruliðana burtu úr dalnum árið 2009. Skæruliðarnir hafa ítrekað reynt að ná dalnum aftur á sitt vald og hafa ráðist á fólk sem þeir telja vera andstæðinga sína. Malala er í hópi þeirra sem skæruliðarnir telja andstæðinga sína. Malala byrjaði að berjast opinberlega fyrir rétti sínum og annarra stúlkna til að læra þegar hún var 11 ára gömul. Skæruliðarnir höfðu hins vegar bannað stúlknaskóla og vildu ekki að konur fengju að mennta sig. Þeim þótti því barátta Malölu vera ógnun við sig. Þann 9. október 2012, þegar Malala var á leið heim úr skólanum í skólabílnum, réðust tveir vopnaðir menn inn í bílinn og skutu hana í höfuðið. Malala þurfti að gangast undir marga uppskurði, bæði í Pakistan og á Bretlandi. Hún náði sér að mestu en lamaðist að hluta í andliti. Malala fluttist ásamt fjölskyldu sinni til Bretlands því þau voru ekki örugg lengur í Swat-dalnum. Hún stofnaði sjóð til að styðja stúlkur til náms og ætlar að halda baráttu sinni áfram. Malala hefur fengið fjölda verðlauna fyrir baráttu sína og var tilnefnd til friðarverðlauna Nóbels árið 2013. Hvað finnst þér um sögu Malölu? Hvaða tilfinningar vöknuðu? Segja má að Malala sé jafnréttishetja. Á næstu blaðsíðum er meðal annars sagt frá fleiri jafnréttishetjum sem hafa barist fyrir bættu samfélagi fyrir okkur öll.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=