Ég, þú og við öll

20 Á Íslandi er skólaskylda. Það þýðir að öllum börnum er skylt að sækja skóla og sveitarfélögum hér á landi ber skylda til að sjá öllum börnum innan sveitarfélagsins fyrir skólaplássi. Það eru sams konar reglur á mörgum stöðum í heiminum en stundum er erfitt að framfylgja þeim til dæmis vegna fátæktar og fjarlægðar milli skóla og heimilis. Næst er ferðinni heitið til Síerra Leóne í Afríku. Þar er skólaskylda rétt eins og hérlendis en erfitt að framfylgja henni vegna fátæktar og fjarlægða milli staða. Ishmael „Ég heiti Ishmael og bý í litlu þorpi í Síerra Leóne. Ég er ellefu ára og ætti að vera í skóla en mamma mín getur ekki leyft mér það eins og er þótt hún vilji það gjarnan. Hún hefur ekki efni á að borga einhverjum öðrum fyrir verkin sem ég og yngri systkini mín eigum að vinna, eins og að líta eftir hjörðinni og hjálpa til á ökrunum. Skólinn er líka svo rosalega langt í burtu. Svo gæti mamma ekkert hjálpað okkur með heimavinnuna því hún kann ekki að lesa eða skrifa. Hún gat ekki heldur farið í skóla þegar hún var barn. Ég veit að mamma myndi vilja læra að lesa en hún hefur ekki tíma og það er enginn sem hefur tíma til að kenna henni það. Mamma er samt að reyna að safna eins og hún getur til að við getum flutt burt úr þorpinu og komist til Freetown. Þar eru skólar sem við getum farið í og mamma ætlar að finna sér einhverja góða vinnu.“ Njóta öll börn og unglingar á Íslandi jafnréttis þegar kemur að skólagöngu og menntun? Skoðaðu landakort og finndu heimaland Ishmaels. Næst höldum við til Pakistans svo þú ættir að leita að því á kortinu líka.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=