Ég, þú og við öll

19 Hverfum nú aftur heim til Íslands rétt sem snöggvast. Þóra Melsteð, frumkvöðull í menntun kvenna á Íslandi Þótt okkur á Íslandi þyki kannski sjálfsagt mál að fá að ganga í skóla frá sex til sextán ára aldurs, er alls ekki langt síðan þessi réttindi fengust. Þau eru líka langt frá því að þykja sjálfsögð alls staðar í heiminum. Baráttan fyrir jöfnum rétti allra barna til að stunda nám hefur verið mjög erfið og er alls ekki lokið. Á mörgum stöðum í heiminum er miklu erfiðara fyrir stelpur að fá að stunda nám heldur en stráka. Í raun er alls ekki mjög langt síðan réttur stúlkna og kvenna til náms var viðurkenndur í þeim hluta heimsins þar sem þau þykja sjálfsögð núna. Eins og til dæmis á Íslandi. Þóra Melsteð var mikil baráttukona fyrir menntun kvenna hér á landi. Árið 1871 byrjaði hún, ásamt fleiri konum, að safna peningum til að geta stofnað kvennaskóla í Reykjavík. Sjálf safnaði Þóra stærstum hluta upphæðarinnar. Hún fór bæði til Skotlands og Danmerkur og fékk peninga í söfnunina hjá kennurum og kóngafólki þar. Kvennaskólinn var settur í fyrsta sinn þann 1. október 1874 á heimili hjónanna Þóru og Páls Melsteð. Þóra var skólastjóri og Páll kenndi við skólann þangað til þau hættu að vinna vegna aldurs. Árið 1906 sæmdi danski konungurinn, Friðrik VIII, Þóru verðleikamedalíu úr gulli fyrir ævistarf hennar í þágu menntunar kvenna á Íslandi. Þetta var stærsti heiður sem nokkrum Íslendingi hafði hlotnast til þess tíma. Þótt Þóru tækist að stofna skólann sinn var enn langt í að almennu jafnrétti til náms yrði náð. Getur þú fundið dæmi í nærumhverfi þínu um konur sem fengu ekki tækifæri til að mennta sig?

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=