Ég, þú og við öll

18 Nú þegar ýmis gagnleg hugtök hafa verið kynnt til sögunnar hefjum við ferðina. Ferðalag okkar hefst hjá Zöhru í Afganistan. Í Afganistan getur verið erfitt að komast í skóla en Zahra er ákveðin í að mennta sig. Hún lítur upp til frænku sinnar sem náði að ljúka háskólanámi þrátt fyrir erfiðar aðstæður. Zahra „Ég heiti Zahra og er frá Afganistan. Mig langar að verða blaðamaður svo ég geti skrifað um allt sem mér finnst mikilvægt. Það skiptir miklu máli að fá að tjá sig. Mig langar að skrifa um allt sem gerist í kringum okkur daglega og hvernig það breytir lífi okkar. Mig langar líka að ferðast um allan heiminn til að kynnast því hvernig lífið er hjá öðru fólki. Frænka mín er hetjan mín og fyrirmynd vegna þess hvað hún er hugrökk og góð. Hún gat ekki gengið í skóla þegar hún var lítil því það voru engir skólar fyrir stelpur þar sem hún bjó. Þegar hún var yngri máttu konur helst ekki að fá að læra neitt. Hún komst loksins í skóla þegar hún fluttist til borgarinnar 16 ára gömul. Eftir að hún útskrifast þaðan komst hún í háskóla til að læra læknisfræði. Að náminu loknu fór hún að aðstoða stúlkur og drengi við að komast í skóla. Hún hefur líka hjálpað mér mjög mikið og þess vegna langar mig að hjálpa fleirum. Mér finnst mikilvægt að geta hjálpað öðrum. Þótt margt hafi breyst er ennþá mjög margt sem stelpum er bannað hérna. Það verður ekki auðvelt fyrir mig að ná markmiðum mínum og verða blaðamaður en ég veit að frænka mín mun hjálpa mér.“ Hvað dettur þér í hug þegar þú heyrir orðið hetja ? Þegar talað er um að einhver sé hetja er oftast átt við að hún eða hann hafi lagt eitthvað mikið á sig. Oft er það til að hjálpa öðrum en stundum hefur hetjan sjálf staðist erfiða raun. Til eru margs konar hetjur. Sumar hafa áhrif á samfélag sitt, aðrar á stóran hluta heimsins. Það eru líka til hetjur sem fáir vita af en eru heimsins mestu hetjur í augum sinna nánustu. Við þurfum líklega ekki að leita langt til að finna ótal hetjur og góðar fyrirmyndir, fólk sem við getum litið upp til og lært eitthvað jákvætt af. Á hvaða hátt getum við sjálf haft áhrif til góðs? Hvernig getur þú verið fyrirmynd annarra?

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=