Ég, þú og við öll

13 Karlmannlegir háir hælar Ef einhvern grunar að háhælaðir skór hafi ekki verið fundnir upp til að ganga um í þeim – þá hefur sá hinn sami alveg rétt fyrir sér! Háhælaðir skór voru hreint ekki fundnir upp til þess og þeir voru heldur ekki ætlaðir konum sérstaklega. Persneski herinn hafði öldum saman verið þekktur fyrir stríðshesta sína og reiðmennsku. Háir hælar á skóm hermannanna gerðu þeim kleift að standa upp í ístaðinu til að skjóta af bogum sínum. Í lok 16. aldar sendi Abbas 1. konungur Persíu fulltrúa sína til hirða evrópskra konunga til að styrkja sambandið milli ríkjanna. Við það vaknaði mikill áhugi á persneskri menningu í Evrópu og fyrr en varði voru evrópskir aðalsmenn allir komnir í háhælaða skó. Háu hælarnir þóttu yfirmáta karlmannlegir og því fínni sem hællinn var hærri. Skórnir voru sérlega óhentugir til að ganga á utandyra og þess vegna urðu þeir ennþá vinsælli. Aðalsmennirnir vildu gjarnan að það sæist á klæðaburði þeirra að þeir þyrftu ekki að vinna eða ganga langar vegalengdir. Lúðvík fjórtándi varð sérstaklega hrifinn af háu hælunum. Hann var ekki hávaxinn og notaði því skóna til að hækka sig um nokkra sentímetra. Lúðvík vildi hafa alla sóla og hæla á skónum sínum rauðmálaða því rauður litur var mjög dýr og þótti karlmannlegur. Hann gaf meira að segja út tilskipun um að engir aðrir en aðalsmenn við hirð hans mættu nota rauða hæla. Upp úr 1630 komst í tísku hjá konum að vera í karlmannlegum fötum og það var ekki fyrr en þá sem þær byrjuðu að nota háhælaða skó. Skótískan var eftir það eins fyrir karla og konur alveg fram til loka aldarinnar. Hælarnir á kvenskónum urðu þá mjórri og hærri en lægri og breiðari á karlskónum. Um 1740 duttu háu hælarnir úr tísku hjá körlum og fimmtíu árum síðar hættu konur líka að nota þá. Það var ekki fyrr en um miðja 19. öldina sem háir hælar komust aftur í tísku og þá aðallega sem hluti af kventískunni. Hvers vegna ætli háir hælar þyki kvenlegir í dag? Heldur þú að einhvern tíma komi að því að þeir þyki aftur karlmannlegir? Rauðir hælar Lúðvíks fimmtánda sem hélt í hefð fyrirrennarans Lúðvíks fjórtánda. Skórnir efst á síðunni eru úr málverki af Lúðvík fjórtánda.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=