Ég, þú og við öll

11 Sagan um bleikt og blátt Stundum er því haldið fram að það sé í eðli stelpna að þykja bleikur litur flottastur en í eðli stráka að þykja blár litur flottastur. Ef svo ætti að vera hefði eðli barna þurft að snúast alveg á hvolf á miðri síðustu öld. Fram að þeim tíma voru skoðanir á litavali fyrir börnin ekki nærri eins fastmótaðar. Í byrjun tuttugustu aldar birtust greinar í blöðum þar sem talað var um hvaða litir hentuðu börnum best. Í einu blaði stóð að bleikur litur hentaði strákum betur af því að hann væri svo kraftmikill en blár stelpum því hann væri svo fínlegur. Fleiri greinarhöfundar tóku undir þetta sama sjónarmið. Í öðru blaði var mælt með bláum lit fyrir bláeygð börn en bleikum fyrir brúneygð. Eftir heimsstyrjöldina síðari tóku hins vegar fata- og leikfangaframleiðendur ástfóstri við þessa tvo liti og völdu bláan lit fyrir stráka og bleikan fyrir stelpur. Smám saman festist hefðin í sessi þangað til fólk fór að draga samasem-merki milli litavalsins og kyns barnanna. Hugmyndir okkar í dag um stelpu- og strákaliti eru byggðar á afar snjöllu markaðssetningarbragði hjá framleiðslufyrirtækjum og verslunum. Skoðum dæmi: Ungt par eignast sitt fyrsta barn. Það er stúlka. Barnið fær bleik föt, bleik húsgögn og meira að segja bleikar bleyjur. Nokkrum árum síðar eignast unga parið annað barn. Í þetta sinn er það drengur. Unga parið verður þá að kaupa allt upp á nýtt og í þetta sinn verður allt blátt. Í stað þess að selja unga parinu föt og annan búnað fyrir barnið sem það gæti nýtt aftur þegar næsta barn kemur í heiminn, er hægt að selja þeim sams konar vörur tvisvar. Hvaða áhrif heldur þú að svona tvískipt markaðssetning hafi haft t.d. á leikfangamarkaðinn?

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=