Ég, þú og við öll

10 Hvað er félagsmótun? Um miðja síðustu öld fóru ýmsir fræðimenn að efast um að hægt væri að tala um eðli karla og kvenna. Rannsóknir sýndu nefnilega að hugmyndir fólks um eðli karla og kvenna voru mjög mismunandi á milli staða í heiminum. Hugmyndirnar breyttust líka frá einum tíma til annars. Fræðimennirnir fóru þá að velta fyrir sér hvort það sem kallað var eðli væri í raun hugmyndir ólíkra samfélaga um hlutverk karla og kvenna. Eitthvað sem var svona breytilegt milli staða og tímabila hlaut að vera búið til af hverju samfélagi fyrir sig. Það þýðir að í raun er ekki hægt að tala um eðli heldur eru hugmyndirnar félagslega mótaðar . Félagslega mótaðar hugmyndir um sérstaka eiginleika, hegðun, getu og áhugasvið kynjanna eru kallaðar kyngervi . Kyngervi er ekki meðfætt heldur lært. Mótun kyngervis byrjar um leið og við fæðumst. Skilaboð sem hafa mótandi áhrif dynja á okkur úr öllum áttum. Þau koma bæði úr nánasta umhverfi okkar og úr miðlum eins og sjónvarpi, útvarpi, blöðum og af netinu. Þau læðast líka upp að okkur á lúmskari hátt, í gegnum það sem fólk segir og jafnvel það sem er ekki sagt. Hugmyndir um kyngervi verða smám saman hluti af því sem þykir sjálfsagt og eðlilegt. Þessar hugmyndir endurspeglast oft í staðalímyndum. Hvaða dæmi getur þú nefnt um mótandi skilaboð í þínu umhverfi? En lítum nánar á nokkur dæmi um félagsmótun nú á dögum og fyrr á öldum. Staðalímynd er ákveðin skoðun eða hugmynd um hópa fólks, hvernig það er eða hagar sér.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=