Ég, þú og við öll

9 Hvað er eðli? Hugmyndir um eðlismun á kynjunum hafa lengi lifað góðu lífi. Fyrir þúsundum ára héldu Forn-Grikkir að heiminum mætti skipta í tvo flokka: Í hið kvenlega og hið karlmannlega. Þeir þóttust sjá mynstur í veröldinni sem fólst í andstæðum pörum. Til dæmis: karl/kona, sál/líkami, menning/náttúra, skynsemi/tilfinningar, ljós/myrkur, gott/slæmt. Þetta er kallað tvíhyggja . Forn-grísku samfélagi var stjórnað af fámennri stétt valdamikilla karla. Þeir völdu sér að sjálfsögðu þann helming listans sem þeim þótti lýsa æskilegustu eiginleikunum fyrir sig, eins og sál, menningu og skynsemi. Tvískiptingin var talin lýsa eðli heimsins og þar með karla og kvenna. Þetta þýðir að ef karl er í eðli sínu eitthvað eitt, þá er kona í eðli sínu andstæða þess. Þetta er svokölluð eðlishyggja . Eðlishyggjan og tvíhyggjan eru oft notaðar til að réttlæta ákveðnar hefðir, venjur og hugmyndir um kynhlutverk. Þá er gjarnan sagt að einhverjir ákveðnir eiginleikar, hegðun, geta eða áhugasvið séu konum eða körlum eðlislæg . Dæmi um þetta er þegar talað er um að umönnun sé stelpum eðlislæg en að strákum sé eðlislægt að vera virkir . Eðlishyggjan hefur í gegnum tíðina verið notuð til að afsaka alls konar óréttlæti eins og til dæmis kynjamisrétti, þrælahald og stríð. Þá hefur því verið haldið fram að einhverjir eigi betra skilið en aðrir vegna þess að þeir séu betri í eðli sínu. Forn-grískir spekingar settu fram margar áhugaverðar kenningar. Sumar þeirra hafa staðist tímans tönn en aðrar ekki. Regla Pýþagórasar er til dæmis notuð í stærðfræði enn í dag en hins vegar hefur jarðmiðjukenningin, um að jörðin sé miðja alheimsins, verið rækilega afsönnuð. Eðlis- og tvíhyggjukenningunum var trúað mjög lengi en nútíma rannsóknir sýna betur og betur fram á að þær eiga heima í flokknum með jarðmiðjukenningunni. Hvaða eiginleika hefur þú heyrt talað um sem þykja sýna eðli stelpna eða stráka?

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=