Ég sé með teikningu

INNGANGUR 5 UPPBYGGING OG NOTKUN NÁMSEFNISINS Námsefnið er safn hugmynda að verkefnum fyrir nám í teikningu. Það byggist upp af sex köflum sem hver um sig miðar að ákveðinni hæfni í teikningu og sköpun. Fyrsti kafli, Skynjun , miðar að því að nemendur nýti skynfærin til að rannsaka eigið umhverfi. Annar kafli, Hreyfing , miðar að því að þeir hreyfi teikniáhald í samræmi við rannsókn sína. Í þriðja og fjórða kafla, Birtu og Dýpt , er stefnt að því að nemendur efli með sér þekkingu og skilning á sýnilegu umhverfi og í fimmta kafla, Ímyndun , er sér- stök áhersla lögð á að þeir virki ímyndunarafl sitt og sköpunarkraft. Sjötti kafli, Rýni til gagn s, miðar að því að nemendur ígrundi og meti eigin og annarra verk og vinnuferli og setji þau í samhengi við verk listamanna. Ekki er ætlast til að verkefnin séu unnin í þeirri röð sem þau koma fyrir í námsefninu heldur að einstök verkefni séu valin úr fyrstu fimm köflunum til skiptis og ígrundunarverk- efnunum úr sjötta kafla fléttað saman við þá vinnu. Stundum getur t.d. reynst vel að hafa unnið verkefni úr öðrum kafla áður en verkefni úr fyrsta kafla er leyst. Þannig er hægt að sníða verkefnavinnuna að áhuga og þörfum nemenda hverju sinni og gera hana fjölbreyti- legri. Með þeim hætti efla nemendur smám saman með sér mismunandi hæfni sem inn- hverfist jafnt og þétt í teikni- og sköpunarhæfni þeirra. Í upphafi hvers kafla er viðfangsefni hans lýst í stuttu máli, meginmarkmið tiltekin og meginhugtök skýrð. Hvert og eitt verkefni er byggt upp af eftirfarandi þáttum: Aldursstig . Tiltekið er hvaða aldursstigi hvert og eitt verkefni hentar. Oft má aðlaga verkefnin að breiðari aldurshópi. Stutt lýsing . Verkefninu er lýst í fáum orðum. Markmið . Markmið verkefnisins eru tiltekin. Kveikja . Í kveikju er ýmist vísað á verk listamanna, vinnuaðferðum lýst eða velt upp spurningum sem eiga við verkefnið. Henni er ætlað að undirbúa vinnu nemenda, gefa þeim byrjunarreit til að hefjast handa út frá og vekja áhuga. Kennarar geta valið kveikju sem þeir telja að eigi við sína nemendur. Efni og áhöld . Þau efni og áhöld sem henta fyrir verkefnið eru tiltekin. Verkefnið . Í þessum þætti er vinnu nemenda lýst og er hún þungamiðja hvers verkefnis. Mynddæmi sem fylgja af mögulegum afrakstri og af nemendum að störfum eru ætluð til aukins skilnings kennara á verkefninu, en ekki til að sýna nemendum. Samræðuspurningar . Í þessum þætti eru gefnar spurningar sem ætlað er að koma af stað samtali og ígrundun á viðfangsefni, vinnuferli og afrakstri verkefnisins. Leitarorð . Gefin eru upp orð sem nota má til að finna ítarefni á netinu, til dæmis til notkunar í kveikju eða samræður.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=