Ég og umheimurinn 2913 | Kennsluleiðbeiningar | © Miðstöð menntunar og skólaþjónustu 2025 9 Öll saman Um kaflann Kaflinn er inngangur að efni bókarinnar og kynnir efni sem reglulega er nefnt, meðal annars Sameinuðu þjóðirnar, heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og sjálfbæra þróun. Markmiðið er að nemendur átti sig á helstu réttindum barna samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og geti tengt þau við daglegt líf barna í ólíkum heimshlutum. Hugtök kaflans og útskýringar Sameinuðu þjóðirnar (SÞ) • Alþjóðasamtök sem flest ríki heims eru í, stofnuð eftir seinni heimsstyrjöld til að stuðla að friði, öryggi og samvinnu milli þjóða. Friður • Að lifa án átaka og stríðs. Þegar fólk getur unnið saman og búið við öryggi. Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna • Sautján markmið sem öll lönd heims hafa samþykkt að vinna að til ársins 2030 – meðal annars gegn fátækt, fyrir menntun, jafnrétti og verndun jarðarinnar. Sjálfbær þróun • Að lifa og starfa þannig að auðlindir jarðar nýtist komandi kynslóðum – að skila jörðinni í að minnsta kosti jafn góðu ástandi til komandi kynslóða. Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna • Samningur um að öll börn í heiminum eigi rétt á vernd, menntun, málfrelsi, fjölskyldu og sjálfstæðu lífi – óháð uppruna eða aðstæðum. Réttindi barna • Hlutir sem börn eiga skilið – eins og að fara í skóla, fá að borða, vera örugg og fá að tjá sig. Barnahermenn • Börn sem eru þvinguð til að taka þátt í stríði eða bardögum. Barnaþrælkun • Þegar börn eru látin vinna mikla, erfiða og hættulega vinnu og er haldið frá menntun. Menning • Siðir, venjur, tungumál, trú og lífsstíll fólks. Menning er ólík eftir löndum og samfélögum þó að margt sé einnig sameiginlegt. Hnattræn hlýnun / loftslagsbreytingar • Þegar meðalhiti jarðar hækkar vegna mengunar og áhrifin valda öfgum í veðurfari, bráðnun jökla og hækkandi sjávarmáli ásamt fleiru.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=