Ég og umheimurinn 2913 | Kennsluleiðbeiningar | © Miðstöð menntunar og skólaþjónustu 2025 47 Trú og menning Um kaflann Í þessum kafla er fjallað um trú, trúarbrögð, menningu, gullnu regluna og fordóma. Nemendur læra að trú er persónulegt mál og að samkvæmt Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna hefur hver og einn rétt til að trúa á það sem hann vill – eða að trúa ekki. Fjallað er um helstu trúarbrögð heimsins, bæði eingyðistrú (eins og kristni, íslam og gyðingdóm) og fjölgyðistrú (eins og hindúisma og ásatrú). Einnig er minnst á trúleysi. Nemendur kynnast hugmyndum um siðareglur trúarbragða, þar á meðal „gullnu reglunni“ sem segir að koma skuli fram við aðra eins og maður vill að aðrir komi fram við mann sjálfan. Þessi regla er til í mismunandi útgáfum í mörgum trúarbrögðum. Kaflinn fjallar einnig um menningu sem samansafn siða, venja, tungumáls og tákna, og hvernig trú og menning tengjast. Það er tekið dæmi um íslenska menningu og hvernig kristin trú hefur mótað hefðir og tákn hér á landi, þótt trúfrelsi ríki. Loks er fjallað um fordóma – hvað þeir eru, hvernig þeir myndast og hvernig hægt er að vinna gegn þeim. Nemendur fá að velta fyrir sér hvers vegna fordómar lifa enn í samfélaginu og hvaða áhrif jákvæð og neikvæð umfjöllun hefur á viðhorf fólks. Hugtök kaflans og útskýringar Trú • Persónuleg sannfæring um tilvist æðri máttar eða krafta. Trúfrelsi • Réttur hvers einstaklings til að velja á hvað hann trúir eða að trúa ekki á neitt. Trúarbrögð • Kerfi hugmynda, siða og reglna sem tengjast trú á guð eða guði, eða æðri mátt. Eingyðistrú • Trúarbrögð sem trúa aðeins á einn guð (t.d. kristni, íslam, gyðingdómur). Fjölgyðistrú • Trúarbrögð sem trúa á marga guði (t.d. hindúismi, ásatrú). Gullna reglan • Siðaregla sem segir að koma skuli fram við aðra eins og maður vill að aðrir komi fram við mann sjálfan. Menning • Siðir, venjur, tungumál, listir, trúarbrögð og reglur sem einkenna hóp eða samfélag. Siðareglur • Leiðbeiningar eða reglur um hvernig fólk á að hegða sér gagnvart öðrum og samfélaginu.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=