Ég og umheimurinn 2913 | Kennsluleiðbeiningar | © Miðstöð menntunar og skólaþjónustu 2025 42 Fridur í heiminum Um kaflann Kaflinn fjallar um hvað friður er, hvers vegna hann er mikilvægur og hvernig hægt er að viðhalda honum bæði milli einstaklinga og þjóða. Friður er ekki aðeins fjarvera stríðs heldur einnig að fólk geti lifað saman í sátt, gert málamiðlanir og leyst ágreining án ofbeldis. Átök eru hluti af mannkynssögunni og geta verið bæði smávægileg og mjög alvarleg. Vopnuð átök, eða stríð, valda gríðarlegri eyðileggingu, mannfalli og flótta fólks frá heimilum sínum. Stríð geta átt rætur í baráttu um landsvæði, auðlindir, pólitísk völd eða mismunun gagnvart ákveðnum hópum. Borgarastríð og hryðjuverk eru meðal þeirra átaka sem hafa alvarleg áhrif á almenna borgara. Málamiðlun er lykilatriði í friðsamlegri lausn deilna. Hún krefst þess að allir gefi eftir og leiti sameiginlegra lausna. Textinn fjallar einnig um að í sumum löndum ríki yfirborðsfriður sem í raun byggist á kúgun, þar sem fólk má ekki tjá skoðanir sínar. Friðsamt samfélag þarf jafnframt að tryggja mannréttindi. Samskipti án ofbeldis eru mikilvæg í daglegu lífi. Þau byggjast á að virða tilfinningar annarra, hlusta, forðast móðganir og velja sáttaleiðir. Hugtök kaflans og útskýringar Friður • Ástand þar sem engin stríð eða alvarleg átök eru, og fólk getur lifað saman í sátt og samlyndi. Innri friður • Tilfinning um ró og jafnvægi innra með sér. Átök • Ósamkomulag eða deilur milli einstaklinga eða hópa; geta verið smá eða stór. Vopnuð átök / stríð • Átök þar sem vopn eru notuð til að ná fram markmiðum. Borgarastríð • Stríð milli ólíkra hópa innan sama lands. Hryðjuverk • Ofbeldisverk gegn venjulegu fólki til að skapa ótta. Málamiðlun • Lausn á deilu þar sem allir gefa eitthvað eftir og finna sameiginlega niðurstöðu. Friðargæsla • Aðgerðir, oft undir stjórn Sameinuðu þjóðanna, til að vernda fólk og stuðla að friði á átakasvæðum.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=