Ég og umheimurinn 2913 | Kennsluleiðbeiningar | © Miðstöð menntunar og skólaþjónustu 2025 41 Jafnrétti Kennari útskýrir hugtakið „jafnrétti“ og gefur dæmi um mismunun (aldur, kyn, húðlit, fötlun) og útskýrir hvernig lög og mannréttindasáttmálar verja fólk gegn slíku. Ræðir um rétt barna til menntunar og hvernig aðstæður eins og fátækt eða kyn geta haft áhrif á aðgang að skóla í sumum löndum. Verkefnahugmyndir • Gera lista yfir leiðir sem við getum stuðlað að jafnrétti í skólanum. • Umræður: „Við getum breytt heiminum ef við viljum – en við verðum að gera það saman“ og koma með hugmyndir að aðgerðum. MEIRA OG FLEIRA Aðgengi fyrir öll Kennari sýnir nemendum samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks – sérstaklega 9. grein: Þingsályktun um réttindi fatlaðs fólks. Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Nemendur fara í hópum á mismunandi svæði í skólanum og gera skýrslu um aðgengi, hljóðvist og fleira. Gott getur verið að ræða við nemendur um mikilvægi þess að upplifa sig sem hluta af hópi (að tilheyra) áður en farið er af stað. Rannsóknarspurningar: • Er auðvelt að komast að staðnum fyrir alla, líka fyrir börn í hjólastól eða með hreyfihömlun? • Eru hurðir nógu breiðar? • Eru stigahandrið og/eða lyfta ef um margar hæðir er að ræða? • Er gott aðgengi fyrir börn með sjón- eða heyrnarskerðingu (t.d. hljóðmerki, skilti, ljós, snertimerkingar)? • Er staðurinn öruggur og þægilegur fyrir börn með ólíkar þarfir? • Er hljóðvist góð (t.d. fyrir börn sem eru mjög næm fyrir hávaða)? • Eru til stuðningsúrræði á staðnum (t.d. hjálpartæki, stuðningsfulltrúi eða skólaliði)? • Eru skipulag og reglur á staðnum skýr og sýnileg (t.d. með táknmyndum, litum, einföldu máli)? • Geta öll börn tekið þátt í því sem gerist á þessum stað? • Er eitthvað sem gæti útilokað einhver börn? • Eru öll velkomin, sama hvernig þau eru eða hvaða stuðning þau þurfa? • Er einhver sérstök aðstaða eða úrræði sem hjálpa börnum að taka virkan þátt? • Hvað þarf að gera til að fötluðu barni líði vel í skólanum? • Er umhverfið þannig að það sýni virðingu og skilning á fjölbreytileika barna? • Finnst þér skólinn hugsa vel um börn með ólíkar þarfir á þessum stað? Hvers vegna er mikilvægt að upplifa sig sem hluta af hópi?
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=