• Auðlindir eru hráefni sem koma frá náttúrunni og við þurfum að fara vel með. Dæmi: hreint vatn, hreint loft, heitt vatn, fiskurinn í sjónum og trén í skóginum. • Við erum sjálfbær þegar við nýtum auðlindir jarðarinnar án þess að skaða umhverfið. Þá endurnýjar náttúran sig sjálf og fleiri geta fengið að njóta sömu auðlinda og við. • Gróðurhúsaáhrif þýða að loftið á jörðinni hitnar. Þau eru hluti af náttúrunni og án þeirra væri stöðugt frost allt árið. • Mengun á stóran þátt í hlýnun jarðar. Sum mengun er af mannavöldum en önnur til dæmis af eldgosum eða öðru af völdum náttúrunnar. • Ef hitastigið á jörðinni hækkar, þó að það sé ekki nema örlítið, er meiri hætta á flóðum, þurrkum, fellibyljum og skógareldum. • Vistspor segir til um hve mikið af auðlindum fólk notar. Því meira sem við notum og sóum, því stærra verður vistsporið. Á netinu eru til reiknivélar sem hjálpa þér að reikna út vistspor. • Í sumum löndum er vistspor fólks lítið vegna þess að það kaupir lítið og nýtir hlutina lengur. Á öðrum stöðum, eins og á Íslandi, er vistsporið stærra því við kaupum mikið og hendum oft hlutum sem mætti nota lengur. • Margar leiðir eru til að minnka vistsporið. Til dæmis að ganga, hjóla eða nota strætó þar sem það er hægt í stað þess að keyra í bíl. Svo er hægt að fækka ferðalögum með flugvélum. • Hægt er að minnka vistspor með því að flokka og endurnýta í stað þess að henda. Þegar við endurnýtum fer minna í ruslið og þá þarf líka minna land undir rusl sem er grafið í jörðu. • Ef við förum vel með auðlindir þá mun Jörðin halda áfram að sjá okkur og þeim sem koma á eftir okkur fyrir því sem við þörfnumst. Samantekt 37
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=