Ég og umheimurinn

36 Vistvænar samgöngur Eitt af því sem gerir vistsporið okkar stórt er að við ferðumst mikið með bílum og flugvélum. Þær samgöngur eru ekki umhverfisvænar því enn nota flest farartæki olíu eða bensín. Ef við ætlum að minnka vistsporið þá verðum við að minnka neyslu. Við gætum til dæmis hugsað um hvernig við ferðumst. Rafmagnsbílar eru betri fyrir umhverfið en bílar sem ganga fyrir olíu eða bensíni. Þeir eru samt ekki alveg skaðlausir því það er mengandi að búa til rafhlöður í svoleiðis bíla. Svifryksmengun frá dekkjum rafmagnsbíla er töluvert meiri en annarra bíla vegna þess hversu þungir þeir eru. Svifryk eru agnir í andrúmsloftinu sem verða til úr tjöru, gúmmíi og mulningi úr malbiki. Svifryk er mjög óhollt, því það getur borist í okkur í gegnum lungun og skapað margs konar veikindi. Það er sérstaklega slæmt fyrir börn og fólk sem er með astma og ofnæmi.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=