30 Fylgstu með fjölmiðlum í nokkra daga – í blöðum, útvarpi, sjónvarpi eða á samfélagsmiðlum. Athugaðu hvort fjallað sé um þurrka, flóð, storma eða skriðuföll. Skrifaðu stutta lýsingu á hvað gerðist og hvar það átti sér stað. Kynntu niðurstöðurnar fyrir bekknum. Ræðið saman: Hvernig getum við dregið úr hækkun lofthita á jörðinni? Hvað getum við sjálf gert? Hvað geta fjölskyldur, skólar og borgir gert? Hvað þurfa ríki heimsins að gera? Nú gætu mörg okkar velt því fyrir sér hvort hærri hiti á jörðinni sé ekki bara hið besta mál. Þér finnst kannski þægilegt að vera í sól og hita og værir alveg til í að losna við vetrarkuldann. En málið er ekki alveg svona einfalt. Með hærra hitastigi verða miklir þurrkar á sumum stöðum. Það þýðir að gróður hverfur og eyðimerkur stækka. Svo má búast við meiri skógareldum. Við erum nú þegar farin að heyra um fjölgun skógarelda í Norður-Ameríku, Ástralíu, Kanaríeyjum og víðar. Annars staðar á jörðinni eru þurrkar ekki vandamálið heldur miklar rigningar, flóð og skriðuföll. Með hækkandi hitastigi fjölgar líka stórum og kröftugum stormum og fellibyljum. Flest fólk er sammála um að hitastigið á jörðinni megi ekki vera hærra en það er nú. Auðvitað eru mörg atriði sem hafa áhrif á hækkandi hitastig. Við getum lítið gert við eldgosum sem menga loftið og valda hlýnun. Við getum ekki stjórnað náttúrunni. Við getum hins vegar stjórnað hegðun okkar og hjálpað jörðinni heilmikið með því að ganga vel um hana.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=