99 Fordómar Orðið fordómar þýðir að dæma án þess að þekkja – við fellum dóma án þess að kynna okkur málið. Við höfum aðeins skoðað eina hlið málsins. Búnar eru til einfaldar lýsingar af hópum eða þjóðum og svo eru allir einstaklingar sem hafa þessi sömu einkenni dæmdir út frá þeim. Neikvæðir fordómar eru þegar fólk, sem talar íslensku með hreim eða fólk sem hefur útlensk eftirnöfn, fær til dæmis verri þjónustu í verslunum eða á í erfiðleikum með að fá vinnu. Af hverju hefur fólk fordóma gagnvart öðrum? Nokkrar skýringar eru til. Í fyrsta lagi hefur fólk tilhneigingu til að líka vel við einstaklinga sem líkjast því sjálfu. Fordómar geta orðið til vegna þess að fólk reiknar með því að þau sem hafa aðra trú, tungumál og menningu hafi einnig allt önnur viðhorf en það sjálft. Fordómar lærast. Það þýðir að fólk lærir fordóma frá foreldrum, vinum og eigin menningu. Þeir lærast til dæmis þegar neikvæð orð eru margsögð um ákveðinn hóp. Skoðanir barns á ákveðnum hópum geta stafað af því hvernig talað er um hópana heima fyrir. Dæmi um það geta verið viðhorf til samkynhneigðra. Aðalástæða fordóma er neikvæð umfjöllun um aðra. Ein leið til að draga úr fordómum er jákvæð umfjöllun til dæmis í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum. Það er líka hægt að setja lög sem banna fordóma. Haturstal er til dæmis bannað með lögum á Íslandi. Og íslenskar kvennahreyfingar hafa náð miklum árangri við að breyta viðhorfum (skoðunum) kynja og stuðla að auknu jafnrétti.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=