Ég og sjálfsmyndin - kennsluleiðbeiningar

Ég og sjálfsmyndin – Kennsluleiðbeiningar | © Sigríður Steinunn Karlsdóttir | Menntamálastofnun 2022 | 2896 | 60 Kynþroskinn og tími breytinga Markmið: Að nemendur átti sig á breytingum sem eiga sér stað á tímum kynþroskans, bæði líkamlegar og andlegar. Fróðleikur fyrir kennarann: Hvaða lífeðlislegu breytingar eiga sér stað á þessum tíma hjá ungu fólki þegar kynþroskinn hefur innreið sína. Hormón eru efni í líkamanum sem valda þeim breytingum sem verða við kynþroskann. Í höfðinu er kirtill sem heitir heiladingull sem sendir frá sér hormón sem berst til kynkirtlanna. Kynkirtlarnir, eggjastokkar hjá stelpum og eistu hjá strákum, hefja þá framleiðslu kynhormóna. Kynhormón kvenna er estrógen og kynhormón karla er testósterón. Erfðir og líkamlegt ástand stýrir því hvenær kynþroskinn byrjar. Í upphafi kynþroskaskeiðs fer undirstúka heilans að seyta efni sem kallast losunarþáttur kynstýrihormóna. Kynstýrihormónin eru tvenns konar. Þessi kynstýrihormón örva kynkirtla, það er eggjastokka og eistu, til að mynda kynfrumur og til að mynda og setja út kynhormón. Kynhormónin berast um allan líkamann og valda þeim sjáanlegu líkamlegu breytingum sem einkenna kynþroskaskeiðið. Umræðuefni: • Hafið þið upplifað einhverjar andlegar breytingar nýlega? Eins og tilfinningarnar verði stærri? Pirringur verði reiði og leiði verðu dýpri depurð? Það er eðlilegt og kallast hormónasveiflur. • Þekkið þið tilfinninguna að vilja eiga eins föt, hlusta á sömu tónlist og vinir ykkar? • Haga unglingar sér öðruvísi en yngri krakkar og fullorðnir? Hvernig þá? • Haldið þið að það sé erfitt að vera unglingur? Hvers vegna/hvers vegna ekki? • Hlakkið þið til að verða unglingar? Kvíðið þið kannski fyrir því? Hvers vegna/hvers vegna ekki? • En hvernig haldið þið að hægt sé að undirbúa sig fyrir þetta tímabil? • Getið þið spjallað við vini eða fjölskyldu um ykkar vangaveltur? Hugtök útskýrð: Kvíði: Kvíði er eðlileg tilfinning í aðstæðum sem eru ógnvænlegar, hraðar eða innihalda mikið áreiti. Viðvarandi kvíði er áhyggjuefni. Bekkjarandi: Andrúmsloftið í bekknum. Hvernig nemendur koma fram hvert við annað. Góður bekkjarandi getur skipt sköpum um hvernig okkur líður í skólanum. Geðrækt: Er að hugsa um tilfinningalega heilsu og vellíðan.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=