Ég og sjálfsmyndin - kennsluleiðbeiningar

Ég og sjálfsmyndin – Kennsluleiðbeiningar | © Sigríður Steinunn Karlsdóttir | Menntamálastofnun 2022 | 2896 | 57 Lífið í skólanum Markmið: Að nemendur átti sig á ábyrgð sinni í að mynda góðan skólabrag. Allir bera ábyrgð á sameiginlegri velferð síns umhverfis. Fróðleikur fyrir kennarann: Við berum öll ábyrgð á hvernig okkur líður innan veggja skólastofunnar. Ef einn nemandi skemmir út frá sér með erfiðri hegðun, þá er það okkar ábyrgð að setja honum mörk, tala við kennara, finna leiðir til að hjálpa honum að skilja að þetta hafi áhrif. Það er okkar ábyrgð sem nemendur og kennarar að hrósa, tala fallega, nota uppbyggileg orð og sjá það jákvæða til að búa saman til andrúmsloft sem við viljum vera í. Við erum öll ábyrg fyrir andrúmslofti bekkjarins, þannig við getum lagt okkar af mörkum að búa til og skapa góðan bekkjaranda. Umræður: • Hvað er góður skólabragur? En hvað er slæmur skólabragur? • Hverjir búa til góðan skólabrag? Hvernig? • Hvað gerist ef við brosum meira og sýnum öðrum kærleika? Gætum við náð að smita gleði og brosi um skólann? • Hvernig er stemminginn í skólanum ef við mætum öllum skólafélögum og starfsfólki með reiði eða pirringi? Getum við smitað þau af slæmum skólabrag. Hvar liggur okkar ábyrgð? • Getum við stjórnað skólabragnum ein? En hvað ef við tökum okkur saman og höfum það sem markmið að skapa sameiginlega velferð innan veggja skólans? Verkefni: Tilraun að skapa góðan skólabrag. Að gamni væri hægt að gera tilraun með skólabrag sem bekkur. Einn bekkur tekur sig saman og sendir bara jákvæðni inn í skólann. Með orðum, hegðun og hugsunum yfir eitthvað eitt tímabil, t.d. viku eða nokkra daga. Hægt er að leika sér með þetta á margvíslegan hátt til dæmis með að dreifa fallegum orðum eins og „mundu, þú ert frábær“, bjóða öllum sem þið mætið góðan dag með bros á vör eða aðstoða fólk ef þið sjáið að það þurfi aðstoð. Þessi tilraun væri að sjálfsögðu byggð á huglægu mati á niðurstöðum. Hvort nemendur finna mun á skólabragnum t.d. með því að skoða hvort það sé enn vottur af slæmum skólabrag (ofbeldi, virðingarleysis, einelti eða útskúfun) eða hvort þeir sjái fleiri einkenni af góðum skólabrag (virðing, væntumþykja og kærleikur). Hugtök útskýrð: Hvetjandi: Að vera hvetjandi merkir að hafa þann eiginleika að hvetja fólk áfram. Útskúfun: Það að útskúfa þýðir að hunsa eða útiloka einhvern úr hóp.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=