Ég og samfélagið - kennsluleiðbeiningar

Ég og samfélagið – Kennsluleiðbeiningar | © Harpa Jónsdóttir | Menntamálastofnun 2024 | 2912 | 50 Má setja hvað sem er á netið? Bls. 109 Kveikja Kennari les eftirfarandi ljóð eða sýnir bekknum það. Eitt bros — getur dimmu í dagsljós breytt, sem dropi breytir veig heillar skálar. Þel getur snúizt við atorð eitt. Aðgát skal höfð í nærveru sálar. Svo oft leynist strengur í brjósti sem brast við biturt andsvar, gefið án saka. Hve iðrar margt líf eitt augnakast, sem aldrei verður tekið til baka. Úr Einræðum Starkaðar eftir Einar Benediktsson Verkefni nemenda og umræðupunktar: • Um hvað fjallar þetta ljóð? Bekkurinn hjálpast að við að umorða ljóðið yfir á auðskiljanlegt nútímamál. Það er mikilvægt að nemendur fái tækifæri til að nota eigin orð. Það er hægt að skipta ljóðlínum á milli hópa eða fá bekkinn til að vinna verkefnið saman. • Hér er dæmi um orðalag: Eitt bros getur breytt því hvernig fólki líður (breytt (andlegu) myrkri í birtu). Dropi af til dæmis lit eða eitri sem settur er út í glas breytir öllum vökvanum í glasinu. Þannig getur ein lítil athöfn eða orð haft mikil áhrif á umhverfið. Eitt óvingjarnlegt orð getur látið fólki líða illa. Það þarf að fara varlega með fólk. Fólki getur liðið mjög illa ef því er svarað hranalega. Margir sjá alla ævi eftir einhverju sem þeir sögðu eða gerðu. • Hvenær heldur þú að þetta ljóð hafi verið ort? (Einræður Starkaðar komu út í ljóðabókinni Vogar árið 1921) • Á þetta ljóð við í dag? Hvers vegna/hvers vegna ekki? • Þetta ljóð var ort löngu áður en netið var fundið upp. Hvað segir það okkur um neikvæð samskipti fólks og einelti á netinu? (Ekki nýtt vandamál - gamalt vandamál sem nú fær meiri og hraðari dreifingu og slagkraft) Tengd verkefni úr bókinni: Verkefni 4 og 7 bls. 116 í bókinni.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=