Ég og samfélagið – Kennsluleiðbeiningar | © Harpa Jónsdóttir | Menntamálastofnun 2024 | 2912 | 47 Upplýsingaöld bls. 98–99 Kennari: Í lok sjötta áratugarins voru svo til allir sveitabæir á landinu komnir með talsíma. Símarnir voru samtengdir með allt að 20 bæjum á hverri línu. Þegar hringt var heyrðist hringingin í öllum símunum á sömu línu. Hver bær átti sína sérstöku hringingu sem samanstóð af stuttum eða löngum tónum. Hver sem er á línunni gat tekið upp símann og hlerað, án þess að aðrir yrðu þess varir. Hópverkefni nemenda: Veljið eitt af eftirfarandi verkefnum, eða búið til eigið viðtalsverkefni sem tengist efni kaflans. Fylgið leiðbeiningunum sem koma fram í þessu skjali. • Sveitasíminn. Aflið ykkur upplýsinga um sveitasímann með því að taka viðtal við manneskju sem man eftir sveitasímanum. • Fyrsti farsíminn. Aflið ykkur upplýsinga um hvernig fólk upplifði komu farsíma til Íslands með því að taka viðtal við manneskju sem er fædd 1976 eða fyrr. • Fyrstu heimilistölvurnar. Aflið ykkur upplýsinga um hvernig fólk upplifði það að prófa tölvu í fyrsta sinn með því að taka viðtal við manneskju sem er fædd 1960 eða fyrr. Ítarefni fyrir kennara og nemendur: Á ferð um samfélagið, kennsluleiðbeiningar - Að taka viðtal Bændablaðið: Stutt - stutt - löng Byggðasafn Vestfjarða: Talsíminn í Neðsta Landshagskýrslur fyrir Ísland 1908 – Talsímar Inga Katrín D. Magnúsdóttir: „Það er helvítis lygi, ég er ekkert að hlusta!“ Sveitasíminn: söguleg alvara og samfélagslegt grín Er það satt og falsfréttir? bls. 100 og 101 Kennari: Tilgangur falsfrétta getur verið margs konar. Sumum er ætlað að hafa áhrif á skoðanir fólks, til dæmis í tengslum við kosningar. Aðrar eiga að vekja ótta og kynda undir fordóma. Stundum dreifir fólk röngum upplýsingum í hagnaðarskyni, það er, til að selja vörur eða þjónustu. Hér getur hentað að byrja á spurningunum neðst á síðu 100. Ef nemendur kannast ekki við að hafa séð falsfréttir eða rangar upplýsingar á netinu getur kennari beint athygli þeirra að sjálfskipuðum „sérfræðingum“ á samfélagsmiðlum sem gefa alls konar ráð sem eru meira og minna bull. Megrunarráð eru mjög algengt dæmi um þetta. Verkefni nemenda: Hafið þið heyrt um villt haggis? Haggis er skoskur matur, svipaður slátri. Villt haggis (Haggis scoticus) er skálduð dýrategund sem sögð er vera frá skosku hálöndunum. Skepnan er sögð vera með mislanga fætur til að auðvelda henni að ganga í bröttum hlíðum. Myndum og frásögnum af villtu haggis hefur verið dreift á TikTok og fleiri samfélagsmiðlum, þar sem fólk frá Skotlandi hefur tekið þátt í gríninu í athugasemdakerfinu með því að láta eins og villt haggis sé raunverulegt dýr. • Aflið ykkur upplýsinga um villt haggis og skoðið myndir af „skepnunni“. • Skapið eigin furðuskepnu í anda villta haggissins út frá íslenskum aðstæðum og hefðum. • Reynið að hafa skepnuna hæfilega trúverðuga. • Skrifið lýsingu á skepnunni, lifnaðarháttum hennar og útliti.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=