Ég og samfélagið - kennsluleiðbeiningar

Ég og samfélagið – Kennsluleiðbeiningar | © Harpa Jónsdóttir | Menntamálastofnun 2024 | 2912 | 32 Lýðveldi bls. 61 Kveikja: Mynd af Margréti Þórhildi Danadrottningu. Kennari kynnir myndina, til dæmis svona: Veit einhver hver þessi kona er? Ef krakkarnir þekkja ekki konuna, þá er um að gera að skoða myndina nánar og leita að vísbendingum. Skartið og höfuðskrautið benda til þess að þetta sé drottning eða prinsessa. Litirnir á orðuslaufunum gefa landið til kynna. Þegar rétt niðurstaða er komin er hægt að ræða nafn drottningarinnar. Hún er gjarnan kölluð Margrét Þórhildur á íslensku, þó hún heiti Margrethe Alexandrine Þórhildur Ingrid. Hvers vegna er fyrsta nafnið íslenskað? Hvers vegna heitir hún Þórhildur? (Þegar hún fæddist var afi hennar konungur yfir Íslandi). Margrét drottning afsalaði sér krúnunni í janúar 2024 eftir 52 ár á valdastóli. Sonur hennar Friðrik tók við embættinu og er nú konungur í Danmörku. Konungsríki Norðurlanda eru þingbundin konungsríki. Það þýðir að drottningar og kóngar hafa engin pólitísk völd og þau ráða ekki í landinu. Það gerir þing, ráðherrar, borgarstjórnir, alveg eins og á Íslandi. Svona er þetta líka í flestum konungsríkjum Evrópu. Spurningar neðst á síðunni. Forsetar á Íslandi: hér gæti hentað að skipta bekknum í hópa, þannig að hver hópur dragi nafn eins af sex forsetum Íslands, kynni sér viðkomandi og flytji stutta kynningu á honum/henni í bekknum. Kynningarnar gætu til dæmis innihaldið eftirfarandi: • Hvar er forsetinn fædd/ur? • Hvað gerði hann/hún áður en hann/hún var kosin/nn forseti? • Hvenær var hann/hún forseti (frá/til)? • Ein merkileg/skemmtileg staðreynd um viðkomandi. Dæmi um konungsríki. Hér er hægt að fara svipaða leið, það er að skipta nemendum í hópa og leyfa þeim að velja sér konungsríki, kynna sér það og flytja kynninguna í bekknum. Kynningarnar gætu til dæmis innihaldið eftirfarandi: • Land konungsins/drottningarinnar • Nafn • Þjóðfáni • Hefur þessi konungur/drottning pólitísk völd? • Ein merkileg/skemmtileg staðreynd um viðkomandi. Tengd verkefni úr bókinni: verkefni 1 og 2 á bls. 74 Forseti Íslands bls. 62–63 Fálkaorðan er íslensk heiðursviðurkenning veitt einstaklingum, bæði íslenskum og erlendum. Kristján X konungur stofnaði til orðunnar árið 1921. Tilgangur orðunnar var og er „…að geta veitt þeim mönnum og konum, innlendum og útlendum, sem skarað hafa fram úr öðrum í því að efla heiður og hag fósturjarðarinnar að einhverju leyti, opinbera viðurkenningu…“ Frá stofnun lýðveldisins árið 1944 veiti forseti Íslands fálkaorður.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=