Ég og samfélagið – Kennsluleiðbeiningar | © Harpa Jónsdóttir | Menntamálastofnun 2024 | 2912 | 18 Samvinna bls. 29 • Birna er í vandræðum með heimaverkefni. Hún skilur ekki hvað hún á að gera því hún var svolítið utan við sig í skólanum og gleymdi að fylgjast með. Foreldrar hennar geta ekki hjálpað henni og hún á engin systkini. Hvað getur hún gert? • Stein vantar nýja úlpu. Sú gamla er orðin allt of lítil og svo er líka komið gat á olnbogann. Steinn veit að það eru ekki til peningar heima fyrir úlpunni sem hann langar í, hún kostar marga tugi þúsunda. Hvað getur Steinn gert? Kynning kennara: • Hugsið ykkur venjulegan morgun. Hvað er það fyrsta sem gerist? Jú, þú vaknar. Þú ert í rúmi, inni í húsi, kannski í náttfötum. Þú ferð fram að pissa, þvo þér og bursta tennur. • Hvað hafa margir hjálpað þér að gera þetta? Hér svara nemendur kannski að enginn hjálpi - en þá leiðir kennari þá áfram og nefnir dæmi eins og: • Einhverjir byggðu húsið, • smíðuðu rúmið, • saumuðu sængina, koddann og sængurverið og svo framvegis. Kennari og/eða ritarar bekkjarins skrifar á töflu eða skjá allt sem nemendum dettur í hug. Niðurstaðan verður líklega eitthvað í þessa átt: það sem þú gerir fyrst á morgnanna er eiginlega hópverkefni, þó þú gerir það sjálf/ur/t. Spurning neðst á síðunni: Hér er hægt að skipta starfsstéttunum sem nefndar eru á milli hópa og gefa þeim stuttan tíma til að koma sér saman um svar (t.d. Hvernig væri lífið án bænda?). Hóparnir kynna svo svörin sín í bekknum. Umönnun bls. 30 Umræður í bekknum: • Hvenær þurfum við umönnun? (Þegar við erum lítil, þegar við erum veik, þegar okkur líður illa, þegar við erum gömul). • Hvað með krakka á ykkar aldri? Þurfið þið umönnun? Hvernig þá? • Hvað með fullorðið fólk sem er ekki veikt. Þarf það umönnun? Hvenær þá? • Annast þú einhvern? Hvernig þá? Ritunarverkefni: • Hverjir ólu þig upp? Fólk utan nánustu fjölskyldu getur haft mikil áhrif. Til dæmis fólk í tómstundastarfi, þjálfarar, nágrannar, kennarar og margir fleiri. • Hverjir hafa haft áhrif á þig og þitt uppeldi? • Hvers konar áhrif þá helst? • Það þarf heilt þorp til að ala upp barn. Ertu sammála þessu? Rökstyddu svarið.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=