Ég og samfélagið – Kennsluleiðbeiningar | © Harpa Jónsdóttir | Menntamálastofnun 2024 | 2912 | 16 SAMVINNA Bls. 24–33 Markmið þessa kafla eru meðal annars að nemendur dýpki skilning sinn á hugtakinu samfélagi og átti sig á samvinnu, samhjálp og verkaskiptingu innan samfélaga. Lykilhugtök kaflans Kosningar eru formleg leið fyrir fólk að velja persónur eða hópa í ákveðin hlutverk, til dæmis í embætti eða á þing. Alþingi er löggjafarþing Íslands. Hlutverk alþingis er meðal annars að setja lög. Alþingismaður er manneskja sem hefur verið valin í kosningum til að sitja á þingi. Samfélagsverkefni eru starfsemi eða verkefni sem eru nauðsynleg fyrir allt samfélagið. Starfsstétt er hópur fólks sem vinnur sömu eða skyld störf. Til dæmis kennarar, atvinnubílstjórar og rafvirkjar. Ljár er handverkfæri sem notað var til að slá gras eða skera korn og torf. Tækið samanstendur af beittu blaði (hnífsblaði) sem fest er á tréskaft. Hrífa er handverkfæri sem notað er til að raka til dæmis grasi eða laufum. Hver á að gera hvað? bls. 24–25 Kveikja, myndband um maura. Til dæmis: Inside the ant colony eða What’s Inside An Anthill. Umræður: • Hvað á til dæmis skólasamfélagið sameiginlegt með samfélagi maura? • Hvað gerir mauradrottning? Hvers vegna heldur þú að hún sé kölluð drottning? • Hugsaðu þér að þú sért einbúi sem hefur ekki neitt samneyti við annað fólk. Hvað þarft þú að gera til að lifa af? Spurningar á bls. 25. Ræðið spurningarnar neðst á blaðsíðu 25. Hér mætti skipta bekknum í hópa sem fá til dæmis fimmtán mínútur til að finna svör við spurningunum. Síðan kynna allir hóparnir sín svör. Kennari og/eða ritarar bekkjarins skrá svör fyrsta hópsins á töfluna og bæta síðan við efni sem ekki er þegar komið fram frá hinum hópunum. Ræðið svör hópanna í bekknum. Eru þau lík eða ólík? Er hægt að slá svörum allra hópanna saman í eitt frábært svar við hverri spurningu?
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=