Ég og framtíðin 1–3 | Kennsluleiðbeiningar | © Miðstöð menntunar og skólaþjónustu 2024 | 40356 |9| «Ég og framtíðin» – uppbygging Bókin „Ég og framtíðin“ skiptist í þrjá hluta sem hugsaðir eru út frá unglingastigi grunnskóla. Hverjum hluta er síðan skipt í tvennt, annars vegar verkefni og æfingar sem snúa að sjálfsskoðun og sjálfsþekkingu en hins vegar sambærilegt efni sem snýr að því að horfa út á við og skoða möguleikana. Fyrir nemendur í 8. bekk er lögð áhersla á lífsleikni og sjálfsvitund auk almennrar umfjöllunar um nám og störf. Í 9. bekk tengist meginefnið lífsleikni og sjálfsstjórn í samhengi við starfsferil í nútíð og framtíð. Og í 10. bekk er áherslan á lífsleikni og náms- og starfsferil hvers og eins. Víðast hvar í bókunum eru verkefni sem nemendur vinna ýmist einir, í pörum eða með öllum bekknum. Markmiðið er að nemendur öðlist smám saman hæfni í að skilja hvernig hafa má áhrif á og stýra eigin náms- og starfsferli, með því að auka orðaforða tengdan faginu, horfa inn á við, velta fyrir sér siðferðilegum álitaefnum, hlusta og ræða með öðrum um námsleiðir og tengingu þeirra við störf og atvinnulíf. Hugmyndin er að finna megi rauða þræði í efninu, efnisþætti sem unnið er með á ólíkan hátt öll skólaárin þrjú, sem geti leitt til þess að nemendur sjái nýjar hliðar eða atriði sem þeir áttuðu sig ekki á áður og bæti þannig kunnáttu sína, auki sjálfsvitund og upplifi ákveðnar framfarir við lok 10. bekkjar. Náms- og starfsfræðsla þarf raunar ekki að standa sem sér námsgrein, heldur er hún vel til þess fallin að vera samstarfsverkefni fleiri kennara og náms- og starfsráðgjafa, með tengingu við hefðbundnari námsgreinar. Sú leið er raunar valin í vaxandi mæli þar sem ekki liggur fyrir sérstök námskrá fyrir náms- og starfsfræðslu líkt og í Noregi. Er nærtækt að nefna England- og Gatsby-viðmiðin í því samhengi. Annars er hverjum skóla í sjálfsvald sett hvernig unnið er með efnið enda allur gangur á því hvernig náms- og starfsfræðslu er háttað á hverjum stað. Rétt er þó að benda á að á fyrstu síðu hvers kafla má finna QR-kóða að skjali um „Áform mín fyrir 8.–10. bekk“. Það skjal er til dæmis hægt að byrja að fylla út á haustin og nýta síðan í samtölum við nemendur eða við yfirferð að vori til að gefa nemendum vísbendingar um hvaða markmiðum þeir hafi þegar náð og hvar möguleikar séu til að gera betur. Í Noregi er mikið til af ýmiss konar öðru efni sem tengist náms- og starfsfræðslu. Er oft vísað til þess í frumtexta bókarinnar og er þar ýmist um að ræða sögur, myndbönd, vefsvæði eða QR-kóða sem vísa á tiltekið vefefni. Nokkrar af sögunum hafa nú verið þýddar og staðfærðar í íslenskri útgáfu. Annars hefur verið reynt að nýta það efni sem til er hér innanlands, tengt náms- og starfsfræðslu, lífsleikni eða samfélagsfræði. Vonandi verður þessi útgáfa til þess að smám saman safnist í sarpinn hvað þetta varðar.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=