Ég og framtíðin 1–3 | Kennsluleiðbeiningar | © Miðstöð menntunar og skólaþjónustu 2024 | 40356 |5| Ég og framtíðin er þýdd og aðlöguð útgáfa norsku verkefnabókarinnar Min framtid – Arbeidsbok i utdanningsvalg sem kom fyrst út á íslensku, rafrænt í upphafi árs 2024 og í prentaðri útgáfu samhliða þessum kennsluleiðbeiningum í lok sama árs. Á íslensku er rafræna útgáfan aðgengileg bæði í einu hefti og þremur en prentuð í þrennu lagi; eitt hefti fyrir hvern efstu bekkja grunnskólans. Um er að ræða texta og verkefni sem er ætlað að aðstoða við ákvörðunartökuferli námsvals að loknum grunnskóla. Nemendur horfa inn á við en öðlast í leiðinni þekkingu á þeim fjölbreyttu valkostum sem standa til boða í framtíðar námi eða starfi. Í Noregi er náms- og starfsfræðsla sérstök námsgrein í 8.–10. bekk með tilheyrandi námskrá, alls 110 kennslustundir. Um mikilvægi slíkrar fræðslu og megintilgang segir í norsku námskránni: „Náms- og starfsfræðsla er grunnur undir upplýst og vel ígrundað námsval. Náminu er ætlað að stuðla að uppbyggingu jákvæðrar sjálfsmyndar nemenda þannig að þeir geti tekið ákvarðanir út frá eigin áhuga og forsendum. Viðfangsefnið tengist því að afla þekkingar á tækifærum og kröfum bæði í skólakerfi og á vinnumarkaði, hjálpa nemendum við að takast á við breytingar og öðlast skilning á tengslum náms og starfa.“ Hér á Íslandi hefur náms- og starfsfræðsla ekki almennilega hlotið brautargengi þrátt fyrir að oft sé vísað í mikilvægi hennar, bæði í ræðu og riti. Í almennum hluta Aðalnámskrár grunnskóla (2008) er þó vikið að henni þar sem segir að búa eigi nemendur „ … undir frekara nám og starf með markvissri náms- og starfsfræðslu, víðtækri kynningu á námi sem er í boði að loknu skyldunámi, kynningu á atvinnulífinu og hvernig nám býr fólk undir fjölþætt störf sem bjóðast í samfélaginu.“ Þessu er hins vegar lítið fylgt eftir í greinahluta námskrár þó í endurskoðaðri útgáfu 2024 sé hana nú að finna undir Lykilhæfni – Ábyrgð og mat á eigin námi, og þau hæfniviðmið fyrir 4., 7. og 10. bekk að nemendur geti: - áttað sig á ólíkum og fjölbreyttum störfum sem unnin eru í samfélaginu. - tengt eigin áhuga fjölbreyttum námsleiðum og störfum. - nýtt upplýsingar um námsleiðir og fjölbreytt störf við skipulagningu eigin náms- og starfsferils. Um stöðu náms- og starfsfræðslu á Íslandi í samanburði við nágrannalöndin er annars nærtækast að vísa í úttektir um „Career Education in the Nordic Countries“ sem birst hafa í Nordic Journal of Transitions, Careers and Guidance. Er þar borin saman staða mála varðandi lagaramma, námskrár, skipulag og mat á gæðum slíkrar fræðslu. Um efnið
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=