Ég og framtíðin

4 Orðskýringar Náms- og starfsferill: Leið okkar í námi, starfi og lífinu sjálfu. Leikni í að stjórna eigin náms- og starfs- ferli snýst um að skilja og þroska sjálf sig í tengslum við nám, þróa með sér sterka sjálfsmynd og kanna tækifæri til menntunar og þátttöku í atvinnulífinu. Hér er átt við færni við að safna, greina og nota upplýsingar varðandi nám, vinnu og sjálfa/n sig og til að takast á við tímabil í lífinu þar sem breytingar eiga sér stað. Ákvarðanataka og að skilja afleiðingar af eigin vali eru líka hluti viðfangsefnisins. Þessi leikni gerir fólki kleift að fást við breytingar, til dæmis þegar skipt er um skólastig eða vinnu. Staðreyndin er að hvert og eitt mótast af lífsaðstæðum sínum og gjörðum en getur líka haft áhrif á og mótað bæði eigin framtíð og samfélagið. Náms- og starfsfræðsla: Nám sem tengist stjórnun eigin náms- og starfsferils getur bæði átt sér stað sem hluti af skipulögðu námi í skóla eða með óformlegri hætti vegna áhrifa frá fjölskyldu, vinum eða öðrum mikilvægum fyrirmyndum. Einnig getur verið um að ræða sér námsgrein með námsefni og ákveðnum áfanga- og lokamarkmiðum. Skólinn ber þá ábyrgð á kennslunni og innihaldið er skilgreint í námskrá. Á Íslandi er slík fræðsla ekki sérstök námsgrein, heldur fellur undir lífsleikni og samfélagsgreinar, oft í samvinnu við náms- og starfsráðgjafa. Náms- og starfsráðgjöf: Markmið náms- og starfsráðgjafar eru að efla færni fólks til að takast á við breytingar og taka mikilvægar ákvarðanir sem tengjast vali á námi og starfi. Náms- og starfsráðgjöf felst í aðstoð við fólk til að kanna aðstæður sínar, átta sig á eigin óskum og tækifærum og styðja við ákvarðanatöku og val. Ráðgjöfin fer ýmist fram með einstaklingum eða hópum, oftast staðbundið en einnig á netinu. Náms- og starfsráðgjöf fer víða fram í samfélaginu, hvort tveggja í tengslum við skóla og atvinnulíf. Lífsleikni: Náms- og starfsfræðsla tengist bæði lýðheilsu og lífsleikni á þann hátt að nemendur læra að takast á við bæði meðbyr og mótlæti, áskoranir og umskipti. Með náminu og samspili ólíkra viðfangsefna eiga nemendur að fá innsýn í hvaða þættir eru mikilvægir til að fást við lífið og val á námi og störfum, vera undirbúin fyrir þátttöku í atvinnulífinu, starfsþróun og símenntun ásamt því að þroska með sér jákvæða og sterka sjálfsmynd. Þemu sem tengjast þessum greinum eru lífsstíll, neysla og fjárhagur, gildi, mannleg samskipti, að setja mörk og bera virðingu fyrir öðrum auk þess að geta tekist á við eigin hugsanir og tilfinningar. Orðskýringar

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=