Ég og framtíðin

154 10. bekkur | 2. HLUTI Hönnunarhugsun Hönnunarhugsun er ferli til að kryfja vandamál og stuðla að nýsköpun. Henni má skipta í mismunandi stig sem eru samtengd og hægt að vinna hvert á eftir öðru. Eftir að hverju stigi er lokið getur verið æskilegt (þó ekki alltaf nauðsynlegt), að taka eitt eða fleiri skref til baka í ferlinu. Hönnunarhugsun inniheldur fimm stig: samkennd, þarfir, hugmyndir, frumgerð og prófun. SAMKENND ÞARFIR HUGMYNDIR FRUMGERÐ PRÓFUN Samkennd: Fyrsta stigið snýst um að gera sitt besta til að skilja vandamálið. Ekki hefja ferlið með það viðhorf að þú skiljir allt nú þegar. Vertu opin/n fyrir þeim möguleika að þinn skilningur sé ekki í samræmi við hugsun og skilning annarra. Samkennd með þeim sem vandamálið snýr að er grunnur að því að geta skilið hvað er þeim mikilvægt. Hvað gera þau og hvers vegna? Þarfir: Áður en þú prófar að skilgreina vandamálið getur verið mikilvægt skref að spá í þína eigin reynslu. Þá deilir þú viðeigandi upplýsingum, sem þú býrð yfir, með þeim sem þú ætlar að vinna með. Hvað hefur þú lært um fólkið sem vandinn tengist? Að hverju hefurðu komist um aðstæður þess? Markmið þessa hluta er skilningur á vandamálinu og hvati til að leita lausna. Hugmyndir: Á milli þess að skilgreina þarfir og fá hugmyndir gæti verið gott að spyrja „Hvernig getum við...?“ – til að búa til mismunandi útgangspunkta fyrir ólík sjónarhorn. Hugmyndasköpun snýst í raun um að láta sér detta sem flest í hug. Þetta er hugsanaferli þar sem þú ferð um víðan völl til að finna mörg mismunandi hugtök og niðurstöður. Það eru margar leiðir til að vinna með hugmyndir: • Finna augljósustu lausnirnar og horfa framhjá þeim til að finna frumlegri lausnir. • Nýta styrkleika annarra. • Uppgötva ný eða óvænt svið til að skoða. • Búa til margar og fjölbreyttar lausnir á vandamálinu. • Nota spurningar á borð við „Hvað ef...?“, „Veltum fyrir okkur...?“ og „Getum við samnýtt ...?“.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=