Ég og framtíðin

139 10. bekkur | 2. HLUTI Nám að loknum grunnskóla Nám í framhaldsskólum er skipulagt sem beint framhald af grunnskólanáminu. Hugmyndin er sú að framhaldsskólar geti boðið hverjum og einum nemanda nám við hæfi og er námsframboðið því afar fjölbreytt, en ætla má að um eða yfir 100 mismunandi námsleiðir séu í boði á framhaldsskólastigi: almennt nám, listnám, bóknám og starfsnám. Í framhaldsskólum eru því kenndar bæði verklegar og bóklegar greinar. Þær verklegu miða flestar að því að búa nemendur undir tiltekið starf og veita starfsréttindi en námsbrautir með áherslu á bóknám eru fræðilegri og búa nemendur undir háskólanám. Þrátt fyrir að námið sé fjölbreytt og skólarnir ólíkir er ákveðinn kjarni sameiginlegur flestum námsbrautum hvort sem ætlunin er að stefna að framhaldsskólaprófi, prófi til starfsréttinda eða stúdentsprófi. Námstími í framhaldsskóla getur verið mislangur en er oftast 3–4 ár í bóknámi til stúdentsprófs, námi til ákveðinna starfsréttinda og listnámi. Á langflestum brautum er í boði að ljúka stúdentsprófi. Ólíkt grunnskólanum er nám í framhaldsskóla ekki skylda en öll þau sem ljúka grunnskóla eða eru orðin 16 ára eiga að geta hafið nám í framhaldsskóla, þar sem svokölluð fræðsluskylda er til 18 ára aldurs. Að ýmsu er að huga, enda mikil breyting að fara úr grunnskóla yfir í framhaldsskóla. Það þarf að velta fyrir sér hve margar einingar rétt sé að taka á hverri önn, möguleikanum á að þurfa að taka aftur tiltekna áfanga, gæta vel að mætingu og því hvernig náminu er sinnt frá degi til dags. Fjöldi lokinna eininga á önn stýrir í raun námshraðanum í áfangaskólum og þarf til dæmis að ljúka 33–34 einingum á hverri önn til að ná stúdentsprófi á þremur árum. Einnig þarf ákveðna lágmarkseinkunn til að ná hverjum áfanga og halda áfram í þann næsta. Með því að kanna margar námsleiðir – verklegar og bóklegar – og skoða þær vandlega færðu betri innsýn í alla þá möguleika sem eru í boði. Þá verða ákvarðanir sem þú tekur um framhaldið betur ígrundaðar og þú öðlast færni til að stýra eigin náms- og starfsferli. Það getur verið gott að kynna sér vel upplýsingar á heimasíðum framhaldsskólanna eða á öðrum upplýsingavefjum áður en ákvörðun er tekin um það hvert stefna skuli. Og ræða málin við foreldra, vini, kennara eða náms- og starfsráðgjafa. Áttavitinn Nám & störf Næsta skref

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=