Eðlisfræði 1, 2 og 3 - Kennsluleiðbeiningar

Kennsluleiðbeiningar – Eðlisfræði 2 3 1. Kraftur og hreyfing Kennsluleiðbeiningar - Eðlisfræði 2 Inngangur. Eðlisfræði 2 er önnur bókin af þremur eðlisfræðibókum í ritröðinni Litróf náttúrunnar. Bókin skiptist í fjóra meginkafla, sem skiptast síðan í undirkafla. Meginkaflarnir eru: Kraftur og hreyfing, Þrýstingur, Rafmagn og segulmagn og Orka og afl. Hver kafli hefst með stuttum inngangi og myndum, markmiðum kaflans og nánara efnisyfirliti. Í sérstökum rammaklausum er ítarefni af ýmsum toga, m.a. úr sögu vísindanna og í lok hvers undirkafla eru sjálfspróf úr efni kaflans, ásamt nokkrum grunnhugtökum. Í hverjum meginkafla eru einnig síður eða opnur sem kallast Í brennidepli og fjalla um ýmis viðfangsefni samtímans sem tengjast efni kaflans. Hverjum meginkafla lýkur svo með Samantekt og spurningum og verkefnum úr efninu, undir heitinu Lokahnykkurinn. Fremst í bókinni eru lestrarráð sem gott er að fara yfir með nemendum svo þeir geti tileinkað sér þau. Aftast í bókinni eru svo töflur um eiginleika fastra efna og vökva og að lokum er atriðsorðaskrá. Kennsluleiðbeiningarnar eru uppbyggðar þannig að kaflaskiptingu bókarinnar er fylgt eftir og hugmyndum að kennslu, verklegum æfingum og sýndartilraunum komið að eftir efni hvers undirkafla fyrir sig. FYRSTI KAFLI: KRAFTUR OG HREYFING Allt sem hreyfist hefur farið af stað vegna krafta. Þegar hlutur er kominn af stað þarf einnig kraft til að hægja á honum eða stöðva hann. Kraftar eru allt í kringum okkur og hafa áhrif á allt okkar líf. Isaac Newton setti fram lögmál um krafta og hreyfingu á 17. öld sem enn eru í fullu gildi. Nálgun: Til þess að koma hlutum í hreyfingu, úr hreyfingu eða breyta hreyfingu þarf kraft. Skoðum eftirfarandi frásögn: Guðrún opnaði ísskápinn og náði sér í ískalda dós af gosi. Hún skellti ísskápnum aftur, opnaði gosdósina og drakk hana í einum teyg. Hún varð pirruð yfir því hvað hún hafði klárað hana fljótt og beyglaði dósina saman með höndunum og henti tómri dósinni í endurvinnslutunnuna. Feitletruðu orðin eru orð yfir notkun krafta. Hvernig krafta notar Guðrún? Á netinu má finna ýmis kynningarmyndbönd um krafta á ensku. Hér er tengill á eitt gott myndband, en hægt er að finna mörg af svipuðum gæðum: https://www.youtube.com/watch?v=WndJsQgUeW4 Á íslensku má benda á síðuna vendikennsla.is. Þar eru margs konar stutt myndbönd tengd kröftum. Einnig má biðja nemendur að lesa kaflann og útbúa krossglímu með lykilhugtaki/tökum kaflans. Krossglíma er það þegar lykilhugtak er skrifað lóðrétt á blaðsíðu og stafir orðsins síðan notaðir til að glósa lykilhugtökin lárétt . Það eru einnig góð og vel útfærð verkefni á vef NaNo http://nano.natturutorg.is/ Athugið að svör við verkefnum kaflans eru í sérhefti. Verkefni/verklegt: Kennsla um krafta og hreyfingu býður upp á marga möguleika í verklegri kennslu. Til að kanna hreyfingu má mæla hraða, kasta boltum, skutlum og margt fleira. Ef engin aðstaða er fyrir hendi eru tenglar á sýndartilraunir sem sýna hvernig hlutirnir virka. Sýndartilraun getur reynst mjög vel við að útskýra en kemur aldrei alveg í stað verklegra æfinga. Æskilegur grunnbúnaður fyrir verklega kennslu um krafta og hreyfingu: Teygjur, málband, skeiðklukka, gormar.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=