Eðlisfræði 1, 2 og 3 - Kennsluleiðbeiningar

Kennsluleiðbeiningar – Eðlisfræði 1 4 Inngangur Önnur atriði sem auðvelda nemendum að lesa textann og skilja hann eru meðal annars lestrarráð í upphafi hverrar bókar, gott efnisyfirlit þar sem segir hvað nemandi á að læra í hverjum kafla, samantekt efnisins í lok hvers kafla, stuttar málsgreinar og ljósmyndir eða skýringarmyndir á hverri síðu. Einnig hjálpa spurningar í lok hvers kafla nemendum við sjálfsmat, ásamt því að þurfa að skilgreina helstu hugtök, sem er gríðarlega mikilvægt fyrir skilning á textanum. Orðaforði í náttúrugreinum Þegar texti í náttúrugreinum er lesinn koma óhjákvæmilega fyrir orð sem heyrast alla jafna ekki í daglegu tali fólks. Fólk rekst til dæmis ekki dagsdaglega á orðin ríbósóm og ljóseindir. Þar við bætist að orð sem nemendur kannast ef til vill við úr daglegu lífi, til dæmis varðandi rafmagn eða varma, hafa sérhæfða merkingu í vísindalegu samhengi. Margir nemendur þurfa hjálp til þess að geta náð valdi á þessum erfiðu hugtökum. Gott er að leiðbeina nemendum á eftirfarandi hátt áður en þeim er sett fyrir í námsefninu: • Draga fram þau hugtök og orð sem skipta mestu máli í hverjum kafla. • Skilgreina öll ný hugtök og þau hugtök sem líklegt er að nemendur eigi erfitt með að skilja. Ný hugtök eru skilgreind í textanum og flest þeirra eru líka í orðskýringum aftast í Eðlisfræði 3 . • Vekja athygli nemenda á teikningum og ljósmyndum sem auðvelda þeim að skilja ný orð og hugtök. Nám í náttúrugreinum byggir upp og bætir vísindalæsi , sem er skilgreint í byrjun kaflans en vísindalæsi felur einnig í sér: • Lestur þar sem reynir á nákvæman skilning. • Að tileinka sér þær meginhugmyndir sem eru útlistaðar í hverjum kaflahluta. • Að flokka upplýsingar og skipuleggja þær hugmyndir sem fjallað er um í textanum. • Að gera sér grein fyrir orsök og afleiðingu, svo og tengslum milli hluta. • Að tileinka sér nákvæmar upplýsingar sem eru settar fram í textanum. • Að skilja vísindalegar formúlur og tákn í textanum. • Að lesa leiðbeiningar nákvæmlega, einkum við framkvæmd verklegra æfinga og úrlausn á þeim verkefnum sem lögð eru fyrir í textanum. • Að leita uppi og nýta sér mismunandi heimildir við heimildaöflun. Kennarar náttúrugreina fylgjast stundum ekki nægilega með því hvort nemendum fer fram í að lesa sérhæfðan texta. Þessar framfarir eru lykillinn að því að nemendur verði vel læsir á texta bæði innan og utan skólastofunnar. Tjáning í náttúrugreinum Eitt af fimm lykilhæfniviðmiðum aðalnámskrár snýr að hæfni nemenda til að tjá hugsanir sínar, tilfinningar og skoðanir, munnlega, skriflega og á annan hátt. Þar er einnig nefnd hæfni til að miðla þekkingu sinni og leikni, flytja mál sitt skýrt og áheyrilega og taka þátt í samræðum og rökræðum. Þessa þætti má þroska á marga vegu. Til að efla skriflega tjáningu má biðja nemendur að halda vinnubók. Í vinnubókinni er yfirlit vinnu nemandans yfir námstímabilið. Þar geta nemendur: • Haldið skrá yfir allar athuganir og verkefni. Margar athuganir og verkefni útheimta að nemendur skrifi stutta skýrslu þar sem athuganir þeirra og niðurstöður eru útlistaðar. Nákvæmar leiðbeiningar fyrir skýrslugerð eru hér í kaflanum. • Skráð athugasemdir úr texta kennslubókarinnar og samræðum milli bekkjarfélaga, skráð eigin glósur úr texta ásamt glósum frá kennara og gert krossglímur með lykilhugtökum úr hverjum kafla. • Svarað sjálfsprófum úr hverjum kafla ásamt lokahnykknum í kaflalok. Ítarlegri spurningar þjálfa þá í að skrifa um efni sem tengist inntaki kaflans. Slíkar æfingar eiga ekki aðeins að styrkja kunnáttuna og gefa þeim hugmynd um getu sína heldur einnig að þjálfa ritfærni þeirra.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=