Eðlisfræði 1, 2 og 3 - Kennsluleiðbeiningar
Kennsluleiðbeiningar – Eðlisfræði 1 3 Inngangur Kennsluleiðbeiningar INNGANGUR Bókaflokkurinn Litróf náttúrunnar samanstendur af þremur námsbókum í líffræði, ásamt kennsluleiðbeiningum og verkefnablöðum og öðrum þremur námsbókum í eðlisfræði, Eðlisfræði 1, 2 og 3, ásamt svörum við verkefnum og kaflaprófum á læstu svæði kennara á vef Menntamálastofnunar. Allt efnið, sem er ætlað unglingastigi grunnskóla, hefur verið lesið inn á hljóðbók. Þessar kennsluleiðbeiningar eru eingöngu ætlaðar til nota með eðlisfræðiefninu. Menntagildi „Íslendingar þurfa, sem hluti af samfélagi þjóða, að vera meðvitaðir um að tækni, mannlegar ákvarðanir og gjörðir hafa áhrif á sameign allra jarðarbúa, nú og til framtíðar. Allir eiga að geta tekið virkan þátt í samfélagi, þar sem umræður og ákvarðanir hversdagsins grundvallast á upplýstum og gagnrýnum viðhorfum. Í náttúrugreinum þarf þekkingu, leikni og hæfni til að svo geti orðið.“ (Aðalnámskrá grunnskóla 2011.) Hugmyndafræðin að baki námsefnisins Litróf náttúrunnar er í stuttu máli sú að laða fram forvitni nemenda um lífið á jörðinni og hvernig náttúruöflin verka. Það er ef til vill mikilvægara nú en nokkru sinni fyrr, því mannkynið stendur frammi fyrir áleitnum spurningum um tilvist sína, en jafnframt fleygir fram þekkingu okkar á jörðinni, umhverfinu og alheiminum. Því er það von þeirra sem að þessu efni standa að það stuðli að því að auðvelda nemendum að nálgast nýja, áhugaverða og skemmtilega þekkingu á sviði náttúrugreina. Framsetning námsefnisins Bækurnar í bókaflokknum Litróf náttúrunnar eru allar settar upp á sama hátt sem á að auðvelda nemanda lestur og yfirferð efnis. Læsi á vísindatexta er mikilvægt í nútímasamfélagi og er texti námsefnisins markviss og byggist á viðurkenndum staðreyndum sem eru notaðar til að kynna vísindaleg og fræðileg hugtök fyrir nemendum. Í lok hvers kafla er samantekt sem hjálpar við að setja allt efnið í samhengi og draga fram aðalaðtriðin. Þekking, leikni og hæfni í náttúrugreinum Samkvæmt aðalnámskrá felst hæfni í náttúrugreinum í þekkingu og leikni en einnig í viðhorfum til náttúru, tækni, samfélags og umhverfis. Bókaflokkurinn Litróf náttúrunnar stuðlar að þessu með því að efla áhuga nemenda á náttúrufræði. Það er gert með því að hafa námsefnið nútímalegt, verklegar æfingar einfaldar, gefa kost á sýndartilraunum með öllum köflum og samhæfingarmöguleikum. Nemendur þurfa nefnilega einnig að átta sig á því að þekking verður ekki eingöngu byggð á beinum athugunum heldur líka á upplifun, ímyndunarafli og sköpun. Áhersla á gagnrýna hugsun Vísindaleg þekking er aldrei algild, endanleg eða óyggjandi. Grunnþekking í vísindum, sem efni bókaflokksins býður upp á, á að innihalda gagnrýna hugsun. Námsefnið styrkir og eflir gagnrýna hugsun markvisst með því að spyrja spurninga og fá nemendur til að íhuga hvernig vísindaleg þekking verður til. Í Lokahnykknum , sem eru síðustu spurningar hvers kafla, er farið dýpra í skilning og gagnrýna túlkun námsefnisins. Vísindalæsi Áhersla er lögð á að nemendur séu vísindalæsir. Í því felst að þeir geti lesið texta um náttúruvísindi sér til gagns, notað hugtök úr náttúrugreinum í daglegu lífi og skilið náttúruleg ogmanngerð fyrirbæri. (Aðalnámskrá grunnskóla 2011). Kennslubækurnar í bókaröðinni Litróf náttúrunnar eru settar fram þannig að textinn er aðgengilegur og myndefnið gæðir hann lífi og styrkir og eykur þannig áhuga nemenda. Textinn er skrifaður með það í huga að nemendur í efri bekkjum grunnskólans geti ráðið við hann þótt þeir séu misjafnlega vel læsir. Læsileiki textans er miðaður við að flestir nemendur geti skilið þau vísindalegu hugtök sem koma hér fyrir og náð innihaldi textans. Kaflar eru stuttir og myndir fylgja öllum köflum. Rannsóknir hafa sýnt að nemendur eiga oft í erfiðleikum með að ná valdi á vísindahugtökum, því að þau eru stundum framandleg og þeim reynist erfitt að muna þau. Í þessu námsefni eru helstu hugtök skáletruð til þess að nemendur geti einbeitt sér að því að ná valdi á þeim. Skilgreining fylgir hugtökunum þar sem þau koma fyrst fyrir.
Made with FlippingBook
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=