Eðlisfræði 1, 2 og 3 - Kennsluleiðbeiningar

Kennsluleiðbeiningar – Eðlisfræði 1 15 Inngangur Námsmat Í aðalnámskrá grunnskóla segir að áhersla á alhliða hæfni nemenda krefjist þess að nýttar séu fjölbreyttar leiðir til að meta hæfni þeirra og veita þeim leiðsögn að settu marki. Megintilgangur námsmats er því að afla leiðbeinandi upplýsinga um námið og hvernig nemendum gengur að ná settummarkmiðum. Í eðlisfræðibókunum eru sjálfspróf og spurningar í kaflalok sem geta nýst kennurum til að meta þekkingu nemenda. Einnig eru kaflapróf á læstu svæði kennara sem hugsuð eru sem hugmyndir að efni spurninga úr viðkomandi kafla. Varast skal þó að láta kannanir eða próf af þessu tagi vera ráðandi um mat á þessu efni. Ýmislegt fleira en sundurlaus minnis- og þekkingaratriði skipta þar máli, svo sem reynsla, viðhorf, sköpun og tjáningarhæfni nemenda. Hér fylgir með tillaga að kvarða sem hægt er að nota á stór sem smá verkefni svo hægt sé að gefa fyrir þau samkvæmt hæfniviðmiðum. Einnig fylgir með sjálfsmatskvarði sem nemendur fylla út eftir námstímabil sem ákveðið er af kennara. Námsmat á að vera margþætt og höfða til sem flestra matsþátta sem settir eru fram í námskrá svo sem um lykilhæfni, hæfniviðmið um verklag og hæfniviðmið um viðfangsefni. Lykilhæfniþættir eru fimm og eiga að blandast eðlilega inn í allt námsmat. Þeir eru: • Hæfni nemenda til að tjá hugsanir sínar, tilfinningar og skoðanir, munnlega, skriflega og á annan hátt. Hæfni til að miðla þekkingu og leikni sinni og flytja mál sitt skýrt og áheyrilega og taka þátt í samræðum og rökræðum. • Skapandi hugsun og frumkvæði í efnistökum og úrvinnslu. Hæfni nemenda til að beita þekkingu og leikni, draga ályktanir, áræðni til að leita nýrra lausna og beita gagnrýninni hugsun og röksemdafærslu. • Hæfni nemenda til að vinna sjálfstætt, í samstarfi við aðra og undir leiðsögn. • Hæfni nemenda til að nýta margvíslega miðla í þekkingarleit, úrvinnslu og miðlun og nýta upplýsingar á ábyrgan, skapandi og gagnrýninn hátt. • Hæfni nemenda til að bera ábyrgð á eigin námi og leggja mat á eigin vinnubrögð og frammistöðu. Eðlilegt er að meta, ásamt þekkingu á námsefninu, lykilhæfniþættina fimm. Það má gera með því að meta þátttöku nemenda í samræðum, verklegum æfingum ásamt skriflegum og myndrænum úrlausnum verkefna og prófa. Mappa eða vinnubók, þar sem nemandi safnar saman verkefnum og úrlausnum getur hentað vel til að fá yfirsýn yfir hversu vel hann hefur unnið. Námsmat á að taka tillit til sérþarfa nemenda og þarfa nemenda með sértæka námsörðugleika. Þessir nemendur eiga rétt á að námsmat sé lagað að þörfum þeirra, meðal annars með sérhönnuðum prófum, notkun hjálpargagna og/eða með munnlegu námsmati. Sjálfsmat nemenda, hvort sem er einstaklinga eða hópa, er einnig raunhæfur kostur, til dæmis í tengslum við verkefnavinnu og verklegar æfingar. Matskvarðinn hér fyrir neðan er tillaga að námsmati fyrir stærri verkefni, vinnubækur ofl. Kvarðinn væri afhentur við upphaf verkefnisins, svo fyrirmæli séu skýr og nemandi viti til hvers er ætlast af honum. Efst eru almenn fyrirmæli verkefnisins. Í reitina, sem geta verið eins margir eða fáir og þörf krefur, koma nákvæm viðmið. T.d: Leggur sitt af mörkum í samvinnu. Forsíða vönduð og inniheldur nafn verkefnis, nafn nemanda og nafn kennara. Hugtök vel skilgreind og aðgengileg. Flutningur verkefnis skýr. Þetta eru aðeins dæmi til skýringar á því hvað hugsanlega gæti komið í reitina. Lykillinn er að hafa viðmiðin nákvæm og skýrt orðuð, bæði svo nemandi geti farið eftir þeim og kennari dæmt eftir þeim. Einkunn fer svo eftir því hvar merkt er við í reitina. Í raun er það matsatriði kennara hvar hann vill draga línuna, ef það eru ekki augljóslega flestir krossar við einn bókstaf.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=