Drekadansinn

Til kennara og foreldra! Drekadansinn er sjálfstætt framhald af bókunum Vinir Afríku og Græni gaukurinn sem fjalla allar um systkinin Einar og Tinnu. Þær eru í Smábókaflokki Menntamálastofnunar. Leitast er við að höfða til ólíkra áhugasviða barna með texta sem er innihaldsríkur þrátt fyrir einfalda framsetningu og lögð áhersla á að sögurnar höfði til tilfinninga og rökhugsunar og ekki síst kímnigáfu lesenda. Áður en bókin er lesin Áður en lestur hefst ættu nemendur að skoða bókina, ræða um hana og kynna sér • hver er höfundur hennar • hver hefur teiknað myndirnar • hvað bókin heitir • um hvað hún fjallar Einnig ættu nemendur að skoða myndirnar vel og gera sér í hugarlund hvað gerist í sögunni, hvar hún fer fram, hver atburðarásin er, hvaða persónur sjást á myndunum o.s.frv. Minnast nemendur þess að hafa lesið bók um sömu krakka? Umræðuefni heima og í skólanum Merkisdagar. Hvers vegna eru dagarnir kallaðir bolludagur, sprengidagur og öskudagur? Hvað er sérstakt við hvern dag? Hvað gera börnin á þessum dögum? Hvaða fleiri merkisdaga/ hátíðisdaga þekkja börnin? Margbreytileiki siða. Hvers vegna ætli menn haldi hátíðir? Halda allir hátíðir á sama hátt? Þekkja börnin hátíðir í öðrum löndum? Eigum við hátíð sem minnir á luktarhátíð Kínverja? Fjölmenningarlegur heimur. Hafa börnin reynslu af að alast upp annars staðar en á Íslandi? Þekkja börnin siði eða venjur sem við höfum lært af útlendingum sem hingað hafa flust? Frásögn og ritun • Ímyndaðu þér að þú sért komin í skóla þar sem þú kannt ekki tungumálið. Hvernig myndir þú reyna að gera þig skiljanlega(n)? Skrifaðu þrjú atriði á blað. • Teiknaðu hring á blað og skrifaðu orðið Kína inn í hringinn. Skrifaðu eða teiknaðu svo allt sem þú veist um landið og fólkið þar í kringum hringinn. • Skiptu blaði í tvo dálka. Í annan dálkinn skaltu skrifa það sem er gert um áramót á Íslandi og í hinn það sem gert er um áramótin í Kína. • Segðu vini eða vinkonu um hvað sagan er. Þú skalt undirbúa þig vel og hugsa um hvað þú ætlar að segja fyrst, hvað næst og hvernig þú ætlar að enda frásögnina.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=