Dísa á afmæli

Til kennara og foreldra! Bæði foreldrar og kennarar vita hversu stórt bil getur verið milli áhugasviðs og þroska 6–9 ára nemanda og textans sem hann er fær um að lesa. Smábókaflokkur Menntamálastofnunar er tilraun til að brúa þetta bil. Reynt er að höfða til ólíkra áhugasviða barnanna með texta sem er innihaldsríkur þrátt fyrir einfalda framsetningu. Bækurnar eru ríkulega myndskreyttar og lögð áhersla á að þær höfði bæði til tilfinninga og rökhugsunar og ekki síst til kímnigáfu lesenda. Smábókaflokknum fylgja ekki vinnubækur en á vefsíðu Menntamálastofnunar eru kennsluhugmyndir eftir Ragnheiði Gestsdóttur sem gilda fyrir bækurnar. Þar eru sett fram dæmi um verkefni sem henta fyrir einstaklingsvinnu og hópvinnu, málfræði, ritun, myndvinnslu og munnlega tjáningu og hægt er að laga að öllum bókunum. Umræður heima og í skólanum Afmæli. Hvað þýðir orðið afmæli? En stórafmæli? Hvað er verið að mæla? Halda allir upp á afmælið sitt? Er hægt að halda upp á afmæli á mismunandi hátt? Geta allir boðið mörgum gestum í afmælið sitt? Afmælisgjafir. Skyldu hafa verið gefnar afmælisgjafir á Íslandi í gamla daga? Skyldu öll börn í heiminum fá afmælisgjafir? Ræðið skynsamlegar/óskynsamlegar óskir um afmælisgjafir. Orðaleikir Samheiti. Finndu orð sem þýða það sama og þessi orð: Dót, gaman, fín, keyra, kát. Andheiti. Finndu orð sem hafa andstæða merkingu við þessi orð: Góður, leiður, sæt, þæg, nýr, kemur. Búa til bók – Myndvinnsla – Leikræn tjáning Gæludýrabókin okkar. Hvert barn teiknar gæludýr sem það á eða langar til að eignast og skrifar texta með eða fær hjálp til að skrifa. Blöðin eru bundin saman í bekkjarbók. Afmælin okkar. Börnin teikna sjálfsmyndir, klippa út og líma á viðeigandi stað á veggspjald sem sýnir mánuði ársins, t.d. stóran hring sem skiptist í 12 hluta. Afmælisveisla. Hvernig hegðum við okkur í afmæli? En gestgjafinn? Afmælisveisla leikin með áherslu á að heilsa, kveðja, þakka fyrir sig o.s.frv. FJÖLMENNING Hvernig er haldið upp á afmæli í öðrum löndum? Þekkir eitthvert barnanna til í öðru menningarumhverfi?

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=