CO₂ - Framtíðin í okkar höndum

Binding í bergi Jarðvarmavirkjanir losa koltvíoxíð (CO 2 ) út í lofthjúpinn sem nemur innan við 1/10 hluta þess sem sambærilegt orkuver losar þar sem jarðefnaeldsneyti er brennt. Á Íslandi hafa farið fram metnaðarfullar tilraunir sem miða að því að beisla það koltvíoxíð sem kemur upp með jarðgufunni, skilja það frá og dæla aftur niður í jarðlögin. Meira en 90% af berggrunni Íslands er basalt.Vatn verður örlítið súrt þegar koltvíoxíð er leyst upp í því, ekki ósvipað og í kolsýrðu vatni á flöskum. Þegar kolsýrðum vökva er dælt niður í jarðlög kemst hann í snertingu við basaltið. Djúpt neðanjarðar verða efnahvörf koltvíoxíðs við kalsíum, magnesíum og járn og það myndast karbónatseindir. Bindingin í berginu djúpt í jörðu er varanleg og lítil hætta á að koltvíoxíðið berist aftur upp á yfirborðið. Íslendingar ryðja brautina í rannsóknum á bindingu kolefnis í bergi og geta þannig miðlað af þekkingu og reynslu til annarra þjóða. Ef tilraun þessi gengur vel verður hægt að reisa jarðvarmavirkjanir sem losa nær ekkert koltvíoxíð. Jafnframt verður til þekking sem gerir kleift að binda koltvíoxíð sem losnar á annan hátt með því að dæla því niður í basaltlögin. Lausn á vandanum? Ýmsar hugmyndir hafa komið fram á sjónarsviðið í því skyni að tempra meðalhita jarðar. Margar þeirra miða að því að draga úr sólarljósi með einhverjum hætti. Ein tillagan gerir ráð fyrir að dreifa smágerðum ögnum hátt uppi í lofthjúpnum. Agnirnar drykkju í sig hluta sólarljóssins eða endurköstuðu því til baka út í geim. Fyrirmyndin er stórt eldgos eða sprengigos, en þá þeytist fín gosaska og efnasambönd upp í 20–30 km hæð. Gosskýið nær að umlykja jörðina á nokkrum vikum og kólnunarmátturinn er talsverður fyrst á eftir. Önnur tæknilausn gengur út á að auka endurkast frá yfirborði jarðar. Hugmyndin er sú að dreifa dufti af ákveðinni efnasamsetningu á yfirborð jarðar. Þegar efnið leysist upp í jarðvegi eykst endurkast yfirborðsins talsvert og þannig er lægra hlutfall sólarorkunnar notað til upphitunar. Flestar þessar tæknilausnir hafa í för með sér ýmsar óæskilegar hliðarverkanir fyrir umhverfi og náttúru. Þær þykja einnig mjög dýrar og margar á mörkum þess að vera framkvæmanlegar. Sumar þessara mótvægisaðgerða eru snjallar og ætti ekki að útiloka þær í leit að lausnum á umhverfisvandanum. Þessum lausnum fylgja hins vegar oftast siðferðisleg álitamál sem snerta alla heimsbyggðina. Miklir möguleikar eru á bindingu kolefnis í nýjum skógum hér á landi. Sama má segja um landgræðslu þar sem kolefni safnast upp í endurnýjuðum moldarjarðvegi. Binding kolefnis í svölu sumarloftslagi á Íslandi tekur langan tíma en á móti kemur að nóg er af rýru og jafnvel örfoka landi til landgræðslu og skógræktar. Kolefnisbinding kostar talsverða fjármuni en hins vegar nýtur hún mikils skilnings flestra Íslendinga. BINDING KOLEFNIS 31 VISSIR ÞÚ AÐ ... … fyrir loftslags- ráðstefnuna í Kaupmannahöfn í desember 2009 voru 15 reiðhjól notuð til þess að knýja ljósa- perurnar á jólatrénu á Ráðhústorgi borgarinnar?

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=