CO₂ - Framtíðin í okkar höndum

24 Efasemdaraddir Ýmsum mótrökum hefur verið teflt fram gegn kenningunni um loftslagsbreytingar vegna aukinna gróðurhúsaáhrifa af mannavöldum. Umræður hafa verið miklar og stundum einkennst af tilfinningahita. Í fjölmiðlum er gjarnan tekist á um loftslagsbreytingar eins og hvert annað pólitískt viðfangsefni, þá er mönnum stillt upp til skoðanaskipta með og á móti. Við verðum að vernda jörðina okkar! Hættum að skemma umhverfið! Loftslagshlýnun er alls ekki af mannavöldum! Uss, þetta er bara bull! Hvaða vitleysa er þetta! Í jarðsögunni hafa oft átt sér stað meiri breytingar en núna! Þetta er bara röfl í umhverfissinnum! Hvað getur gerst? Vísindamenn eru sammála um að tvöföldun í styrk gróðurhúsalofttegunda í lofthjúpi jarðar veldur talsverðri hlýnun. Meiri óvissa er hins vegar um það hversu mikil áhrifin verða. Milliríkjanefndin um loftslagsbreytingar (IPCC) segir rannsóknir benda til þess að líklegast sé að hlýnunin verði á bilinu 1,7 til 4,4°C á þessari öld. Mun hækkun lofthita innan þessara marka verða til þess að allur hafísinn í Norður-Íshafi bráðni að sumarlagi? Hvaða áhrif hefði það t.d. á ísbjarnarstofninn ef ísinn minnkaði og bráðnaði alveg á sumrin? Eða þá mikilvægan stofn loðnu fyrir efnahag Íslands? Óvissa leiðir þannig af sér aðra óvissu og eykur enn á vangaveltur um afleiðingar loftslagshlýnunar. Umræða um loftslagsmál einkennist oft af fullyrðingum sem slegið er fram og stutt er í spádóma sem fela í sér algjört hrun eða jafnvel heimsendi. Mótbárur þeirra sem efast um að loftslagshlýnun sé af mannavöldum eru af ýmsum toga. Sumar þeirra eiga fullan rétt á sér enda eru loftslagsvísindin ekki hafin yfir gagnrýni frekar en önnur vísindi. VISSIR ÞÚ AÐ ... …með aukinni þekkingu á samspili veðurfars og umhverfis dregur úr óvissu og spár verða áreiðanlegri.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=