Brennd á báli

2 Þessi bók gerist á drungalegum tíma í Íslandssögunni sem kallast galdraöld eða brennuöld. Þá leiddi ótti við galdur til þess að fólk sem talið var göldrótt var handtekið og brennt á báli. Talið er að 25 Íslendingar hafi verið drepnir á þennan skelfilega hátt. Galdrafárið barst til landsins frá meginlandi Evrópu þar sem mörg þúsund manns höfðu verið brennd fyrir meintan galdur. Í langflestum tilfellum voru þetta konur og því er talað um nornabrennurnar í Evrópu en hér á landi voru það hins vegar einkum karlar sem voru brenndir til bana. Fyrsta galdrabrennan á Íslandi var árið 1625 en galdrafárið hófst af alvöru árið 1654 með þremur brennum í Trékyllisvík á Ströndum. Síðasta galdrabrennan á Íslandi fór fram árið 1683 á Arngerðareyri í Ísafjarðardjúpi. Þótt tæplega 30 ár hafi liðið milli fyrstu brennunnar og upphafs galdrafársins líður stuttur tími á milli í þessari bók. Persónurnar í bókinni eru skáldaðar en byggja allar á raunverulegum málum, eins og rakið er aftan við kaflana. Það gerir óhugnaðinn í bókinni ennþá skelfilegri.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=