12 Sjálf var Guðrún fínt klædd, eins og vaninn var á sunnudögum, en það þýddi nú lítið annað en að mussan hennar var nýþvegin. Guðrún átti engin spariföt, ekki frekar en mamma hennar. Hvort ætli djöfullinn ginni frekar til sín fátækt fólk eða ríkt? Hún spurði ekki upphátt, því hefði hún aldrei þorað. Guðrún kunni að halda hugsunum sínum fyrir sjálfa sig. „En hvernig getum vér borið kennsl á djöfsa,“ spurði einhver, „ef hann kemur að vitja vor?“ „Forðist freistingar og verið hjartahrein,“ svaraði prestur, „lærið að þekkja gylliboð hins illa. Andskotinn segist geta hjálpað ykkur í lífinu, auðveldað lífsbaráttuna með einföldum leiðum en sá vegur er vegur freistingar. Munið hið heilaga orð – Guð hjálpar þeim sem hjálpa sér sjálfir!“ Presturinn lauk messunni með sálmasöng og blessun. Karlarnir sungu í kór en þótt konurnar fengju ekki að syngja með stalst Guðrún til að hreyfa varirnar og raula innra með sér enda kunni hún öll lögin utan að. Að því loknu sat hún lengi kyrr og fylgdist með fólkinu hverfa út úr kirkjunni. Hana langaði að spyrja prestinn ótal spurninga en mamma hennar hnippti í hana og dró með sér út á hlað. Hvað heldur þú að Guðrún hefði viljað spyrja prestinn um?
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=