Bókablikk - HÖNNUN KÖNNUN

7 Í mati á verkefnum nemenda er mælt með að horft sé til framfara, frumkvæðis, vinnubragða og viðhorfa, frumleika, hugvitssemi og hugmyndaauðgi í framkvæmd. Fyrir utan endanleg verkefni, sjálfsmat og jafningjamat er mælt með að hugað sé að skapandi verkferlum og vinnulagi og nemendur hvattir til að nota hverja þá aðferð sem þeim hentar til að koma hugmyndum sínum og hugmyndavinnu á blað eða fast form. Því er mælt með að nemendur haldi dagbók, skissubók eða rafræna hugmyndamöppu sem kennari leggur reglulega mat á. Jafnframt ætti að leggja mat á framsögn nemenda og málfar í yfirferðum og þátttöku og virkni í umræðum svo eitthvað sé nefnt. Rammi verkefna: Kennsluefnið er tilraun til að nálgast ýmsa þætti grafískrar hönnunar og grunnþætti aðalnámskrár grunnskóla (2011) sameiginlega í þeirri von að það dýpki bæði skilning, ánægju og áhuga nemenda. Rammi verkefnanna er því grunnþættirnir sex: læsi, jafnrétti, lýðræði, heilbrigði og velferð, sjálfbærni og sköpun. Verkefnin, sem eru 17 talsins eru helguð 1-6 grunnþáttum. Fleiri en einn þáttur getur fléttast inn í verkefni og vinnulag verkefna og eru mögulegir snertifletir nefndir í upphafi hverrar æfingar. Eins eru mögulegir snertifletir við aðrar greinar nefndir í upphafi æfinga. Verkefni bókarinnar eru bæði stuttar æfingar og verkefni sem taka lengri tíma. Þar má finna einstaklingsmiðuð verkefni og hópverkefni. Kennsluefnið er samið til notkunar fyrir 8.-10. bekk grunnskóla. Ekki þarf að fara nákvæmlega eftir tillögum verkefna til þess að útkoman verði góð. Hægt er að einfalda verkefni eða þyngja eftir hópum og hentugleik. Hér og þar eru gátur sem bjóða upp á vangaveltur og er ætlað að þjálfa hugmyndaflug og óvæntar tengingar (e. lateral thinking). Kennsluefnið er ætlað kennurum með þekkingu á helstu teikni- og myndvinnslu- forritum, s.s. photoshop, indesign og/eða illustrator eða öðrum forritum með svipaðan tilgang. Gert er ráð fyrir að kennsla í tæknilegum atriðum myndvinnslu- og teikniforrita fari fram samhliða notkun kennsluefnis þessa og því að nemendur noti myndvinnslu- og teikniforrit við úrlausnir æfinga að stórum hluta. Ástæður þess að ekki er farið nákvæmlega í tækniatriði er að efninu er ætlað að efla skapandi, frjóa, sjálfstæða og gagnrýna hugsun við notkun umræddra forrita. Efninu er jafnframt ætlað að styrkja og efla hugmyndavinnu, tilraunamennsku, greinandi hugsun og sjálfstæð vinnubrögð. Kennsluefnið er því gott í bland við tæknilega kennslu í forritum og aðra hagnýta kennslu í heimi grafískrar hönnunar og myndmenntar.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=