Bókablikk - HÖNNUN KÖNNUN
5 markvisst að velferð og vellíðan starfsfólks og nemenda sem verja drjúgum hluta dags í skólanum. Skólum ber ekki einungis að veita fræðslu um ákjósanlegar lífsvenjur s.s. hreyfingu og hollt mataræði. Þeim ber einnig að vera fyrirmynd á því sviði og bjóða upp á heilsusamlegt fæði og stuðla með öruggu umhverfi að heilsusamlegu líferni og hollri hreyfingu. Helstu þættir heilbrigðis samkvæmt riti um Heilbrigði og velferð (Margrét Héðinsdóttir, Fanný Gunnarsdóttir, Erla Kristjánsdóttir, 2013) sem leggja þarf áherslu á eru jákvæð sjálfsmynd, andleg vellíðan, hreyfing, næring, hvíld, góð samskipti, öryggi og jafnrétti, hreinlæti, kynheilbrigði og skilningur á eigin tilfinningum og annarra. Lýðræði og mannréttindi: Í riti um Lýðræði og mannréttindi (2012) segir: „Forsenda lýðræðis er samábyrgð, meðvitund og virkni borgaranna sem gerir þá færa um að taka þátt í að móta samfélag sitt og hafa áhrif nær og fjær. Virðing fyrir manngildi og heilbrigði barna og ungmenna felur bæði í sér virðingu fyrir mannréttindum þeirra og viðurkenningu á hæfileikum þeirra og þroskamöguleikum“ (Ólafur Páll Jónsson og Þóra Björg Sigurðardóttir, bls. 7). Í lýðræði taka einstaklingar virkan þátt í mótun samfélagsins með því að taka afstöðu til siðferðilegra álitamála. Í lýðræðisríki eiga borgarar að búa við mannréttindi og ráða öllum meiriháttar málum sínum sameiginlega. Í riti um Lýðræði og mannréttindi segir enn fremur: „Viðhorf, gildismat og siðferði eru ríkir þættir í lýðræðismenntun jafnframt því sem þau atriði fléttast saman við aðra grunnþætti menntunar. Skólum ber að rækta það viðhorf að samfélagið eigi að vera lýðræðislegt og einstaklingarnir gagnrýnir og með framtíðarsýn" (bls. 7). Jafnrétti: Eins og fram kemur í aðalnámskrá grunnskóla (2011) er jafnrétti regnhlífarhugtak sem nær til margra þátta s.s. aldurs, búsetu, fötlunar, kyns, kynhneigðar, litarháttar, lífsskoðana, menningar, stéttar, trúarbragða, tungumáls, ætternis og þjóðernis. Jafnréttismennt felst í gagnrýnni athugun á viðteknum hugmyndum samfélaga og stofnunum þeirra með það fyrir augum að kenna börnum og ungmennum að greina aðstæður sem leitt geta til mismununar sumra og forréttinda annarra. Á öllum skólastigum á að fara fram jafnréttismenntun þar sem fjallað er um hvernig ofangreindir þættir geta skapað mismunun eða forréttindi í lífi fólks. Auk þess skal stuðlað að jafnrétti í skólum s.s. með því að huga að því að hvergi í skólastarfinu, í inntaki né starfsháttum, halli á annað hvort kynið og þess gætt að nemendur fái eins mikið af tækifærum og frekast er unnt. Sköpun: Í ritinu Sköpun (2012) segir í inngangi: „Sköpun sem grunnþáttur menntunar á að stuðla að ígrundun og andríki, persónulegum þroska og sveigjanleika í námi, frumkvæði og nýsköpun“ (Ingibjörg Jóhannsdóttir, Elísabet Indra Ragnarsdóttir og Torfi Hjartarson, bls. 6). Sköpun er ferli uppgötvana, þess að njóta og þess að örva forvitni og áhuga, þess að virkja ímyndunarafl og leiks að möguleikum. Skapandi vinnuaðferðir og nálgun byggja á gagnrýnni hugsun og aðferðum sem opna sífellt nýja möguleika. Sköpunarferlið sjálft skiptir því ekki síður máli en afrakstur verkefna. Í sköpunarferli á sér stað hagnýting hugmynda. Vinnubrögð listgreina og vísinda einkennast gjarnan af sköpunargleði, frumkvæði og frumleika. Þess háttar vinnubrögð er æskilegt að sjá nemendur tileinka sér í námi auk þess sem þau ættu að einkenna allt skólastarf.
Made with FlippingBook
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=