Bókablikk - HÖNNUN KÖNNUN

19 Æfing 3 – Stafirnir okkar Leikur með stafi – Mónógram Tímalengd: 80-160 mín. + heimavinna Aðferð: Nemendur skoða nöfn sín og bókstafi þeirra, velta fyrir sér samsetningu og möguleikunum sem stafirnir bjóða upp á og svo því hvað þeir vilja standa fyrir eða gera við stafina sína. Verkleg einstaklingsæfing. Góð leið til að kenna nemendum að vinna skissuvinnu er að krefja þá um ákveðnar útfærslutýpur eða tillögur. Vinna með möguleika á ýmsu formi hjálpar þeim að læra að horfa, leita og reyna. Nemendur gera útfærslur og möguleika sem þeir setja á blað og velja svo úr það sem þeim finnst best. Gott er því að gera kröfur um að merki sé skilað fullunnu (t.d. í indesign eða illustrator) og að eftirfarandi tilbrigði séu sýnd: Svart/hvítt og í lit, negatívt og pósitívt og ein til þrjár skissur sem sýna mismunandi letur eða myndnotkun. Í munnlegri yfirferð í lokin fá nemendur tækifæri til að tjá sig. Með þessari vinnu gera þeir sér frekar grein fyrir því hvað þeir geta og vilja og hvert þá langar að stefna. Ef ekki gefst tími til munnlegrar yfirferðar má setja fram eftirfarandi spurningar á bekkjarbloggi/samskiptavef: Takið eftir því hvað þið gerið þegar þið fáið hugmynd, þegar þið eruð strand eða þurfið innblástur og hvernig ykkur gengur best að vinna. Skissið eða skrifið hjá ykkur hvernig þið vinnið og skilið stuttri greinargerð um vinnubrögð ykkar sjálfra og hugmyndavinnuna við úrlausn þessa verkefnis. Mögulegt aukaverkefni: Nemendur vinna mishratt og því er gott að hafa uppi í erminni aukaverkefni fyrir áhugasama. Tilvalið er að setja nemendum fyrir að setja mónógramið sitt upp á nafnspjald með tilheyrandi tillöguvinnu/nokkrum útfærsluleiðum með grafík og upplýsingum. Eins má skoða ytra form nafnspjaldsins og hvetja nemendur til að reyna að koma kennara á óvart, vinna með formið, brjóta það upp með t.d. útskurði, fara óhefðbundnar leiðir, leika sér með tvívídd – þrívídd, o.s.frv. Eins er við hæfi að nemendur velti fyrir sér efni og áferð, pappír, þykkt o.s.frv. Bjargir: Skriffæri, blöð, skissubækur, tölvur og teikniforrit, virkt hugmyndaflug og ímyndunarafl. Grunnþættir: Læsi · sköpun · heilbrigði og velferð Snertifletir við aðrar greinar: Íslenska · (tungumál) · myndmennt · lífsleikni · leiklist Ávinningur: Þessi æfing beinir sjónum inn á við og að persónu nemenda. Hér fá þeir þjálfun í að tjá áhugamál sín, viðhorf, skap og væntingar á táknrænan hátt í leik að bókstöfum. Æfingin þjálfar teikningu, hugmyndavinnu, notkun teikniforrita, mynd-, tákn- og leturlæsi, sjálfstæð vinnubrögð og útsjónarsemi. Æfingunni er ætlað að efla sjálfsmynd nemenda og bekkjar, þjálfa framsögn, heiðarleika og einlægni, táknræna sýn og færni í notkun teikniforrita.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=