Arfurinn

6 samt eins og hann væri eiginlega sá eini í salnum sem var virkilega leiður yfir því að Guðvarður væri dáinn. Það birtust ekki margar minningargreinar í Mogganum. Þær sem birtust – ein frá körlunum í sundlauginni og önnur frá gömlum frænda sem sagði sjálfur að hann hefði ekki hitt Guðvarð mikið síðustu þrjátíu árin – fjölluðu aðallega um það hvað Guðvarður hafði drukkið mikið vín. Það var kannski ekki nefnt berum orðum en samt skrifað þannig að allir skildu hvað var verið að meina. Sumar greinarnar töluðu líka um það hvað hann hefði verið geðvondur. Það stóð alveg berum orðum. Hannes hafði ekki lesið margar minningargreinar en hann vissi samt að fólk skrifaði alltaf það besta sem það gat sagt í þær. Hann vissi að maður átti alls ekkert að vera að skrifa niður alla hlutina sem maður hugsaði, heldur bara hlutina sem maður vildi að annað fólk vissi um þann sem var dáinn. Hvað var eiginlega að þessum vinum Guðvarðar? Hannes hafði sjálfur ætlað að skrifa um Guðvarð. En mamma hans sagði að það væri ekki viðeigandi að „börn sem væru ekki í fjölskyldunni“ skrifuðu minningargreinar. – Hannes, maður á ekkert að vera í fjölmiðlum nema til að vekja athygli á því sem maður er sjálfur að gera. Ég vil ekkert að þú sért að skrifa um gamla manninn. Okkar mál koma fólki ekkert við. Svo gæti einhverjum þótt þetta eitt- hvað skrýtið, ef þú ferð að segjast hafa verið vinur hans. Nei, þú skrifar ekki orð!

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=