Arfurinn

49 En svo sá hann byggingarnar hristast. Þetta var enn einn skjálftinn. Miklu stærri en hinir. Hann leit ósjálfrátt um öxl til að athuga hvort hann sæi húsið sitt. Var jörðin nokkuð búin að gleypa það? Og mömmu hans? Nei, húsið stóð þarna enn þá. En upp úr fjallinu fyrir ofan bæinn steig stór bólstur. Hannes sá appelsínugult hraun byrja að fikra sig niður hlíðina. Það var ekki neinum blöðum um það að fletta. Það var byrjað að gjósa. Hannes hafði lært um mismunandi fjöll í skólanum. Sum voru bara klettar sem höfðu skrapast til þangað til þau voru í laginu eins og fjöll, undir risastórum skriðjökli fyrir þúsundum ára. Önnur voru alvöru eldfjöll, sem höfðu hlaðist upp í kringum gíginn sinn. Snæfellsjökull var til dæmis þannig. Bæjarfjallið þeirra var það ekki. Það var engin eldvirkni í því. Það var eldgamall móbergsstapi, steindauður og meinlaus. En nú hafði opnast sprunga í fjallshlíðinni og djúprauð kvika vall upp úr henni. – Álfrún, sagði Hannes veikri röddu, við erum algjörlega að fara á Snæfellsnes.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=