Arfurinn

46 Hann henti ferðatöskunni inn í aftursætið á bílnum án þess að athuga hver sat við stýrið og settist inn. – Ókei, drífum okkur! Álfrún starði á hann. Hún leit ekki út eins og hún hafði gert þegar hann sá hana síðast. – Af hverju ertu með ferðatösku? Ertu að strjúka að heiman? – Nei, ég er ekki að strjúka að heiman! En, hérna, gætir þú kannski keyrt af stað? Hannes fylgdist með svarta bíln- um í baksýnisspeglinum. – Og hvert á ég að keyra, yðar hátign? Álfrún hafði verið með slétt, músarbrúnt hár niður í mitti og bókavarðarleg gleraugu þegar hún var fjórtán ára. Sautján ára Álfrún reyndist vera með hárið rakað í hlið- unum og efst á höfðinu var föst flétta sem virtist fléttuð úr hanakambinum hennar. Hún var í flíspeysu merktri björg- unarsveit, eins og hún væri á leiðinni í útkall. – Bara út úr bænum til að byrja með, sagði Hannes og leit út um afturrúðuna, bara sömu leið og þú komst. Hann greip símann sinn og setti inn áminningu um það hvenær hann ætti að senda mömmu sinni SMS um að hann væri lentur og allt gengi vel. – Já, en hvað er samt málið með allan farangurinn? Álfrún sat enn þá skökk í sætinu og horfði á hann. Hannesi fannst það svolítið óþægilegt hvað hún starði stíft á hann. Hann var ekki enn búinn að venjast þessari nýju Álfrúnu. Hann beygði sig áfram yfir símann.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=