Arfurinn

43 Ég er SVO SPENNTUR! Hann reyndi að vera glaður á svipinn og ekkert eins og hann hefði áhyggjur af því að húsið þeirra yrði næsta húsið sem jörðin myndi gleypa, þegar vonda fólkið væri búið að finna út hver þessi Jóhannes, nemi Guðvarðar, væri. Mamma hans stóð ringluð á miðju stofugólfinu og starði á Hannes og símann sinn til skiptis. – En þú getur ekki bara farið, Hannes! Ekki strax! Þú þarft að æfa þig meira og … og, það sem mestu máli skiptir, Hannes, er að ég læt ekki ráðskast svona með mig! Röddin í henni styrktist með hverju orðinu. – Æ, mamma, ekki svona, sagði Hannes með tilþrifum. Ég get æft mig í Svíþjóð! Það eru tuttugu og fimm stig þar núna! Þetta verður meiriháttar. Aukadagur í Svíþjóð er æði, mamma! Mamma hans var með símann í lófanum og horfði efins á Hannes. – En ég var búin að ákveða að kveðja þig í Keflavík, sagði hún svo lágt. Af því ég kemst ekki með til Svíþjóðar. Ég ætlaði að kveðja þig í Keflavík og taka myndir í flug- stöðinni. Ég var alveg búin að ákveða þetta. – Þú kveður mig bara núna, hérna heima, sagði Hannes blíðlega. Og svo sendi ég þér SMS og þú hringir. Þetta verður allt í lagi. Og finnst þér ekki betra að þurfa ekkert að koma til Keflavíkur? Mamma Hannesar var flughrædd. Mjög flughrædd. Hún var reyndar hrædd við ýmislegt – umferðina, alls konar ósýnilega sjúkdóma, skógarmítla og félagsráðgjafa.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=