Arfurinn

41 Hann sótti jakkafötin inn í skáp, þar sem þau höfðu hangið síðan í jarðarförinni og reyndi að brjóta þau saman til að koma þeim í töskuna fyrir Evrópumótið. Það gekk ágætlega með buxurnar en jakkinn vildi ekki liggja saman- brotinn. Ermarnar reyndu að rífa sig lausar og kraginn togaði boðungana hvorn í sína áttina. Hannes reyndi og reyndi aftur. Jakkinn lét ekki að stjórn. Þetta var allt glatað. Hannes fékk tár í augun þar sem hann hélt áfram að slást við flíkina. Hann gat ekki einu sinni brotið saman einn jakka. Hvernig átti hann að geta reddað einhverju máli sem hann skildi ekki einu sinni sjálfur? Hann var meira að segja búinn að klúðra fyrsta skrefinu, að fá Álfrúnu í lið með sér. Kannski hefði hann átt að vera vinalegri við hana. Biðja hana fallegar. En hann hafði ekkert viljað hringja í hana. Hvernig getur maður verið vinalegur við einhvern sem er ekki vinur manns? Þau Álfrún þekktust ekkert. Ekki í alvörunni. Hann grýtti jakkanum í töskuna og fleygði sér á gólfið. Kannski yrði húsið þeirra mömmu það næsta sem jörðin myndi gleypa? Hann horfði á veggina og ímyndaði sér djúpar sprungur koma í steypuna þegar moldin þrengdi að útveggjunum. Hann gat næstum því heyrt rúðurnar brotna. Þá gerðist það. Síminn hjá mömmu hans hringdi. Hannes sperrti eyrun. Hafði Álfrún kjaftað í pabba sinn? Eða kannski pabba Hannesar? Eða bara lögguna? Eða gat verið … ?

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=