Arfurinn

22 LÍFIÐ HELDUR ÁFRAM – Ég tek Hannes! sagði Tryggvi og Hannes fann hvernig honum hlýnaði að innan. Jú, Guðvarður var enn þá dáinn en lífið hélt áfram og það var alltaf góð tilfinning þegar aðrir voru ánægðir með mann. Það að Guðvarður væri ekki lengur hér breytti því ekkert. Og lífið batnaði aðeins. Smám saman. Hannesi tókst oftar að gleyma því að Guðvarður væri dáinn. Sérstaklega gekk það vel um helgar og á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum. Veðrið var líka farið að batna og hann gat verið úti á kvöldin með krökkunum úr bekknum. Hann gerði allskonar hluti sem hann hafði aldrei gert með Guð- varði og minntu hann þess vegna ekkert á hann. Það var samt enn þá dálítið erfitt að æfa á píanóið. Þegar Hannes tók upp nótnabækurnar sínar sá hann gulnaða fingurna á Guðvarði fyrir sér fletta síðunum. Þegar hann settist á píanóbekkinn fann hann daufa lykt af neftóbaki. Hann hafði enn ekki getað æft sónötuna eftir Bartók. En hann gat samt ekki hætt að æfa sig, jafnvel þótt hann langaði stundum til þess. Evrópumótið nálgaðist stöðugt og Hannes ætlaði að vinna það. Hann ætlaði ekki bara að standa sig vel – hann ætlaði að koma heim með bikar. Og fá mynd af sér í blöðin. Af því það var gott að ganga vel. Mamma Hannesar hafði fengið verðlaun í ballett þegar hún var á hans aldri. Hún hafði farið til Spánar og fengið verðlaun sem bjartasta vonin. Hún hafði oft sýnt Hannesi

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=